Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 156
156 Jean-Marie Guyau
meðvitað um fyllingu sína sem mun birtast annars staðar í annarri mynd, því í
heiminum eyðist ekkert.
Í stuttu máli er það geta lífsins og athafnasemin sem ein eru fær um að leysa,
ef ekki að öllu leyti þá að hluta til, þau vandamál sem hrein hugsun setur fram.
Efahyggjumaður, í siðferðisefnum jafnt sem frumspekilegum, heldur að honum
skjátlist eins og öllum öðrum, að mannkyninu muni alltaf skjátlast, að hinar
svokölluðu framfarir séu kraftganga á staðnum; honum skjátlast. Hann sér ekki
að feður okkar hlífðu okkur fyrir villunum sem þeir rötuðu í og að við munum
hlífa afkomendum okkar við okkar villum. Hann kemur ekki auga á að í öllum
villum býr sannleikur og að þetta sannleikskorn vex smátt og smátt og öðlast
stöðugleika. Á hinum endanum er sá sem er haldinn kreddutrú og heldur að hann
hafi ólíkt öllum öðrum öðlast sannleikann, heilan, skilgreindan og afdráttarlaus-
an: honum skjátlast einnig. Hann sér ekki að alstaðar er sannleikurinn blandaður
villu, að ekkert í hugsun mannsins er nægilega fullkomið til að verða endanlegt.
Sá fyrri telur að mannkyninu fari ekki fram, sá seinni að það sé nú þegar komið á
leiðarenda. Það er til meðalvegur milli þessara tveggja tilgáta: við ættum að segja
að mannkynið sé á göngu og að það gangi óstutt. Vinnan jafnast á við bænina
eins og sagt er.2 Hún er meira virði en bænin eða, öllu heldur, hún er hin sanna
bæn, hin sanna forsjón mannsins: aðhöfumst í stað þess að biðja. Treystum aðeins
á sjálf okkur og aðra menn, reiðum okkur á okkur sjálf. Vonin, eins og forsjónin,
sér stundum fram fyrir sjálfa sig (providere).3 Munurinn á yfirnáttúrulegri forsjón
og náttúrulegri von er sá að hin fyrri þykist geta breytt náttúrunni milliliðalaust
fyrir atbeina þess sem er yfirnáttúrlegt eins og hún sjálf, en hin síðari breytir að-
eins okkur sjálfum. Hún er afl sem ekki er æðra okkur heldur innra með okkur:
okkur fleygir sjálfum fram fyrir hennar atbeina. Þó er enn óljóst hvort við séum
ein á ferð eða hvort heimurinn fylgi okkur, hvort hugsunin geti nokkurn tíma
leitt náttúruna; – höldum þó áfram. Það er eins og við séum á skipinu Leviathan
þegar það hafði misst stýrið eftir að hafa fengið á sig öldu og með brotið mastur
eftir vindhviðu. Það var villt í hafi eins og jörðin okkar í geimnum. Þaðan hraktist
það til og frá, knúið áfram af storminum eins og gríðarstórt rekald með menn
innanborðs; það komst þó í höfn.4 Kannski mun jörðin, kannski mun mannkynið
líka ná óþekktu markmiði sem það skapar sér sjálft. Engin hönd vísar okkur veg-
inn, ekkert auga sér fyrir okkur. Stýrið er löngu brotið eða, öllu heldur, það var
aldrei neitt stýri, það á eftir að smíða það: það er mikið verkefni og það er okkar
verkefni.
Tryggvi Örn Úlfsson þýddi
2 [Líklega er hér verið að vísa í þekkt orðasamband eftir einn kirkjufeðranna, Jóhannes Chryso-
stom biskup í Konstantínópel á 4. og 5. öld: ekkert jafnast á við bænina.]
3 [Franska orðið fyrir forsjón, providence, er dregið af latnesku sögninni providere sem eins og
íslenska samsvörunin þýðir að sjá fram fyrir sig.]
4 [Í september árið 1861 var stærsta skip veraldar á þeim tíma, farþegaskip að nafni Leviathan, á leið
frá Liverpool til Norður-Ameríku. Á leiðinni lendir það í stormi þar sem stýri skipsins brotnar.
Skipstjórinn nær þó með hjálp farþega að gera tímabundið við stýrið, sigla því út úr storminum
og til hafnar á Írlandi þar sem gert var við það.]