Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 137
Heimspekingur verður til 137
hér að gagnrýnin hugsun sé einkenni fræðilegrar hugsunar; að hún sé rökvís,
greinandi en jafnframt skapandi hugsun. Gagnrýnin hugsun er þá vönduð hugs-
un og einkenni vandaðra fræðilegra vinnubragða. En hvað með heimspekilega
hugsun? Er hún ávallt rökvís og greinandi en jafnframt skapandi? Ef maður leiðir
hugann að heimspekingum og ritum þeirra þá má finna þar marga ólíka karakt-
era og ritstíla. Hugsunin eins og hún birtist í ritum þeirra virðist vera svo margt,
hún virðist bæði vera greinandi, leitandi, spyrjandi, alhæfandi, djörf, ákveðin, hik-
andi, varfærin, heildræn, nákvæm, efins, kaldhæðin, húmorísk, skapandi, ljóðræn,
vélræn, skipulögð, kaotísk, óskýr og sjálfstæð svo eitthvað sé nefnt. En lýsingin
á eigin leikum hugsunarinnar, heimspekilegrar eða gagnrýninnar, á því sem ein-
kennir hana, dugir ekki ein og sér til að skera úr um hvort hún sé eitt og hið sama
eða tvennt ólíkt. Það hvert markmið hugsunarinnar er gefur kannski betri mynd
af eðli hennar.
Markmið gagnrýninnar hugsunar eru ýmist skilgreind sem bættur sjálfsskiln-
ingur; skilningur á öðrum og veruleikanum; sameiginleg (ásættanleg) niðurstaða;
skoðanamyndun; leið til að nálgast sannleikann eða þekking.5 En markmið henn-
ar getur ekki verið þetta allt samtímis því leiðirnar að þessum markmiðum eru
ólíkar. Til að hugsunin geti talist „gagnrýnin“ hugsun, það er að segja einhver
ákveðin tegund hugsunar, þá þarf hún að hafa afmarkaða eiginleika, einkenni,
tilgang og markmið. Ef hún hefur það ekki þá getur hún eingöngu kallast hugsun.
Eins og fram hefur komið er gefið til kynna að hugsunin hafi ákveðna eiginleika
og tilgang þegar við nefnum hana ákveðnu nafni. Við segjum að hugsunin sé
gagnrýnin eða heimspekileg til að aðgreina hana frá annarri hugsun.
Heimspekileg hugsun er, líkt og gagnrýnin hugsun, ákveðin „tegund“ hugsunar
og felur í sér ákveðna „aðferð“ en markmið hennar virðist þó vera öllu víðara en
gagnrýninnar hugsunar. Markmið hennar lýsa sér kannski einna best í beitingu
hennar. Sem dæmi um það er að þó að heimspekingar séu eins ólíkir og þeir
eru margir, í hugsun sinni og stílbrögðum, þá eiga þeir allir það sameiginlegt að
bera kennsl á eitthvað í tilveru okkar og reyna að festa það í hendi sér. Bandaríski
heimspekingurinn Bruce Janz segir að kjarni heimspekinnar sé hæfni hennar til
að færa lífið upp á yfirborðið og ígrunda það, víkka sjóndeildahringinn og auka
fjölbreytni í lífinu með því að búa til ný hugtök.6 Hugsum okkur þá eftirfarandi:
Gagnrýnin hugsun er til. Við beitum gagnrýninni hugsun. Heimspekingurinn
tekur eftir henni, bendir á hana og gefur henni nafn. Hann hugsar um hana,
hugleiðir hana og reynir að skilgreina hana. Hann reynir að átta sig á því hvað
í henni felst; hvert sé eðli hennar, tilgangur og markmið. Hann reynir jafnframt
að sýna fram á hvernig best sé að efla gagnrýna hugsun (þá í ljósi þess að hún er
meðfædd en ekki auðnotuð – að við séum ekki nægilega dugleg að nota hana eða
að það þurfi að kalla hana fram). Hvað er heimspekingurinn að gera? – Hann er
að beita heimspekilegri hugsun! Þannig afhjúpa ólíkar aðferðir hugsunarinnar
ólík markmið þeirra.
5 Sbr. Elsa Haraldsdóttir 2011: 9.
6 Janz 2004: 111.