Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 43
Andleg velferð mannkyns 43
að hann líti svo á að með „andlegri velferð mannkyns“ eigi Mill við „þroska ein-
staklingseðlisins“. Af málflutningi hans má þó glöggt ráða að hann lítur á þetta
tvennt sem jafngilt orðalag. „Hugsunarfrelsi er nauðsynlegt skilyrði fyrir þroska
einstaklingseðlisins“, skrifar hann og hefur ljóslega í huga meginrök Mills.29 Á
öðrum stað í bókinni skrifar hann: „[…] rök hans [Mills] byggjast á þeirri hug-
mynd að fólk verður að hafa frelsi til að hlusta á öll þau rök sem hægt er að leiða
fram um allar hliðar máls ef það á að geta þroskast vitsmunalega og sem einstak-
lingar.“30 Í niðurstöðukafla bókarinnar vitnar O’Rourke til meginniðurstöðunnar
nánast orðrétt og segir síðan í beinu framhaldi: „Það virðist villandi […] að leggja
áherslu annars kafla Frelsisins á eitthvað annað en velferð einstaklingsins.“31 Því
má ljóst vera að hann skilur andlega velferð mannkyns sem þroska einstaklings-
eðlisins.
Túlkun O’Rourkes vekur tvær spurningar í okkar samhengi. Annars vegar
vaknar sú spurning hvort líta megi á einstaklingseðlið (og þroska þess) sem jafn-
gildi andlegrar velferðar mannkyns í meginniðurstöðu Mills. Hins vegar vaknar
sú spurning hvort hugsunarfrelsi og málfrelsi séu yfirhöfuð ófrávíkjanleg skilyrði
einstaklingsþroskans. Spurningarnar eru klárlega aðgreindar, eins og ráða mátti af
umræðunni um sanna skoðun, en hugsunarfrelsi og málfrelsi voru sögð ófrávíkj-
anleg skilyrði sannrar skoðunar þótt afar varasamt hafi reynst að skipta orðalaginu
„andlegri velferð mannkyns“ út fyrir „sönn skoðun“.
Þótt O’Rourke færi ekki beinlínis rök fyrir því að skipta andlegri velferð mann-
kyns út fyrir einstaklingseðlið – hann virðist ekki veita orðalaginu „andleg velferð
mannkyns“ mikla athygli – má finna slík rök í Frelsinu. Það er t.d. eftirtektarvert
að Mill lýsir frjálsum þroska einstaklingseðlisins á eftirfarandi hátt:
Engin hætta væri á, að menn lítilsvirtu frelsið, ef almenn tilfinning væri
fyrir því, að frjáls þroski einstaklingseðlisins [free development of indivi-
duality] sé ekki aðeins einn þáttur menningar, lærdóms, menntunar og
andlegs lífs [culture], heldur einnig nauðsynleg forsenda alls þessa. (115;
CW 18: 261)
Við sáum að Mill notar ekki ósvipað orðalag um andlega velferð mannkyns, en
öll önnur velferð var einmitt sögð byggjast á henni. Einstaklingsþroski og andleg
velferð mannkyns eru tengd órofa böndum í allri umræðu Mills. Þó er ýmsum
vandkvæðum bundið að fylgja fordæmi þeirra sem skipta „andlegri velferð mann-
kyns“ út fyrir „einstaklingseðli“ í meginniðurstöðunni. Við sáum t.d. að Mill
minnist hvorki á einstaklingseðli eða þroska þess þar né þegar hann lýsir ástæð-
unum fjórum fyrir því að telja hana sanna. Mill ræðir einstaklingseðlið og þroska
þess í þriðja kafla Frelsisins, ekki í öðrum kaflanum. Ofangreind meginniðurstaða
Mills ætti samkvæmt O’Rourke e.t.v. að hefjast á orðalaginu: „Við munum sjá, að
hugsunarfrelsi og málfrelsi eru ófrávíkjanleg skilyrði andlegrar velferðar [þ.e.a.s.
29 O’Rourke 2001: 162.
30 Sama rit: 108.
31 Sama rit: 162.