Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 83
Vilji og skynsemi 83
komið fram og þróast á stigbundinn hátt.27 Frá þessu sjónarhorni eru meðvit-
aðar viljaathafnir mannsins ekki andstæða ósjálfráðra viðbragða heldur má líta
á hvoru tveggja sem birtingarmynd ólíkra stiga í þróun mannshugans, þar sem
ósjálfráð „lífeðlisfræðileg“ viðbrögð hafa þróast til meðvitaðrar, skynsamlegrar og
viljabundinnar breytni á náttúrulegan hátt.
Í sálfræði Spencer falla því tilfinningar mannsins, skynsemi og vilji undir sama
hatt. Öll meðvituð og sjálfráð breytni felur í sér og er óhugsandi án minnis, skyn-
semi, tilfinninga og vilja.28 Meðvitund mannsins getur gert sér ólíkar hugmyndir
um ólík viðbrögð við tilteknum aðstæðum, sem geta ýmist byggt á eðlisávísun,
minni, skynsemi eða tilfinningum, sem takast á og leitast við að raungerast. Viljinn
er hinsvegar fólginn í raungervingu ákveðinnar hugmyndar og er orsakavaldur að
líkamlegum og sálrænum athöfnum en er jafnframt orsakaður af lífeðlisfræðilegri
gerð mannsins og sem slíkur er viljinn skilyrtur og lögmálsbundinn.29 Viljinn er
ekki frjáls eða sjálfráður nema í takmörkuðum skilningi.
Spencer mótmælir ekki þeirri hugmynd að hver og einn hafi frelsi til að gera
það sem hann eða hún vill eða þráir en viljinn er engu að síður lögmálsbund-
inn í þeim skilningi að hver einstaklingur hefur nauðsynlega til að bera vilja til
einhvers eða þrá eftir einhverju. Þó að einstaklingurinn geti haft áhrif á viljann
er viljinn ávallt nauðsynlega til staðar, og einstaklingurinn hefur ekki vald yfir
því hvort hann vill eða vill ekki. Viljinn er óaðskiljanlegur hluti af sálfræðilegri
gerð mannsins sem hann hefur ekki vald yfir. Spencer telur að þeim sem haldi
fram óskoruðu frelsi viljans skjöplist hrapallega um gerð sjálfsins og að í því fel-
ist eitthvað meira en „samþætt meðvitund raunverulegra sálfræðilegra þátta“.30
Hugmyndin um fullkomlega sjálfráðan vilja virðist gera ráð fyrir því að maðurinn
geti brotið þau lögmál sem eru að verki í sálarlífi hans, að viljinn komi til sem ytra
boðvald sem er ekki náttúrulegur hluti af sálfræðilegri gerð hans. Þegar einhver
lýsir breytni sinni og segir „ég ákvað“ eða „ég vildi“ virðist vera gert ráð fyrir því
að sjálfið sé eitthvað annað og meira en þeir sálfræðilegu þættir sem lágu að baki
hvötinni og athöfninni. Útkoman hefði orðið allt önnur án frjáls vilja. Markmið
Spencers að þessu leyti er ekki að reyna að draga úr mikilvægi viljans eða koma
einstaklingnum undan því að bera siðferðilega ábyrgð á gjörðum sínum. Afstaða
Spencers snýst um að ekki sé hægt að taka viljann „út fyrir sviga“ heldur sé vilj-
inn þvert á móti samofinn náttúrulegri og sálfræðilegri gerð mannsins, rétt eins
og skynsemi hans og tilfinningar. Hin hefðbundna hugmynd um fullkomlega
frjálsan vilja virðist hinsvegar byggja á mannskilningi af þeim toga sem einkenndi
hugmynd Kants um manninn sem íbúa tveggja heima. Sú hugmynd að viljinn sé
sjálfstæður þáttur sjálfsins sem sé óháður lögbundnum sálfræðilegum grundvelli
hans er einfaldlega blekking í huga Spencers.
27 Sama rit: 317.
28 Sama rit: 366.
29 Sama rit: 367.
30 Sama rit: 369.