Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 68
68 Róbert H. Haraldsson
eina skiljanlega heild. „Þörfin fyrir að vekja hneykslun [feelings of outrage] hjá
nemendum“, skrifa Patai og Koertge,
tengist einnig upphafningu femínista á því sem gengur undir nafninu
„allt-smellur-saman“ reynslan [„click“ experience]. Þátttakendur í nám-
skeiðum sem miðuðu að vitundarvakningu […] sögðu frá því hvernig
það gerðist, þegar þeir báru saman bækur sínar og fóru að bera kennsl á
sameiginleg mynstur á bak við ásakanir sínar og tengja þær hinu víðara
pólitíska samhengi, að þeir urðu fyrir hugljómun þar sem allt féll saman
í eina heild, og þeir vissu samstundis að þeir voru femínistar. Líkt og Sál
gerði eftir að hann varð fyrir vitruninni á veginum til Damaskus, tóku
sumir femínistar á borð við Artemis Oakgrove og Elana Dykewomon
jafnvel upp nýtt nafn eftir að hafa orðið fyrir hugljómun sinni. En þar sem
ofsagleði og fögnuður fylgir iðulega reynslu af trúarlegum sinnaskiptum,
er algengara að reiðibylgjur vakni í kjölfarið á hugljómun femínista. Það
var þó léttir fyrir frumkvöðla vitundarvakningarinnar að uppgötva að
það sem þeir höfðu áður álitið takmarkanir sem áttu rætur að rekja til
einkalífs eða náttúru kvenna voru í reyndinni afleiðing af kerfisbundinni
menningarlegri og pólitískri kúgun. […] Að rækta reiðina eykur því ekki
bara samkvæmt femínistum líkurnar á því að nemendur gerist aktífistar
heldur er það um leið skilyrði þess að hægt sé að fá þeim í hendur sannan
[authentic] femínískan hugtakaramma.137
Slíkar hugljómanir, hversu sannfærandi sem þær kunna að vera í huga viðkom-
andi, eru til þess fallnar að ofureinfalda hið flókna líf einstaklingsins og skapa
einhvers konar allsherjar gerviskilning á lífinu. Það er ekki síst samspilið milli
hugtakaforðans og ofsareiðinnar sem er áhyggjuefni hér. Reiðin er e.t.v. gagnleg
til að einfalda og ásaka (einhvern einn) en ekki til að rannsaka hinn fjölbreytilega
veruleika sem við þrátt fyrir allt búum í.
Innan kvennafræða – og raunar margra annarra póstmódernískra fræða – hefur
ríkt orðræðuhefð sem lítur á kyn, stöðu, kynþátt sem lykil að öllum þáttum mann-
legrar tilveru. Önnur leið til að lýsa slíkri orðræðu er að segja að hún beini athygl-
inni í sífellu frá einstaklingnum (lífi hans, hugsunum og örlögum) og að hópnum
sem hann tilheyrir. Þegar þessi orðræða nær hátindi sínum er einstaklingum
komið í skilning um að hann sé ekkert annað en hópeintak (sbr. tegundareintak).
Sú staðreynd að einstaklingur tilheyrir hópi verður nánast eina marktæka stað-
reyndin um hann. Hóphugsun yfirgnæfir alla aðra hugsun. Slík orðræða bein-
ir athyglinni líka stöðugt frá rökum einstaklingsins og hugsunum hans að ytri
þáttum sem sagðir eru skilyrða hugsunina. Þannig er fullkomlega grafið undan
göfgi og sjálfræði hugans. „Nútíma femínismi“, skrifa Patai og Koertge, „byrgir
konum því miður sýn þannig að þær sjá ekki þá möguleika sem eru til staðar í
einstaklingsbundnu lífi þeirra.“138
137 Sama rit: 96–97.
138 Sama rit: 78.