Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 28
28 Steinunn Hreinsdóttir
(að geta ekki fullnægt viljanum) ekki nauðsynlega að vera þjáningarfull upplifun.
Þar að auki lærum við smám saman af reynslunni að þekkja viljann og áttum
okkur á því að við stjórnum ekki framvindunni af eigin vilja. Við lærum að sefa
viljann og stilla löngunum okkar í hóf, hefta eigingirnina til þess að geta betur
umgengist hvert annað.
Ánægjan þarf ekki að einskorðast við það að uppfylla endanlega allar langanir.
Ofurmenni Nietzsches er til dæmis ekki lokamarkmið, heldur stöðugt lífsverkefni
og ferli sem felst í því að maðurinn eigi að skapa sitt eigið líf og móta sjálfan sig.
Maðurinn er allt lífið að fikra sig áfram í tilvistarlegum og þekkingarfræðilegum
skilningi – og einmitt það gefur lífinu gildi. Þá getur vellíðan falist í virkninni, í
áreynslu og einbeitingu viljans þar sem unnt er að gleyma sér sem viljaveru við
iðju og færni af ýmsu tagi (veiði, skák, langhlaup, fjallgöngu); slík einbeiting getur
einmitt verið griðland hugans eða vindstilla sálarinnar. Við þurfum ekki að vera
svo upptekin af hamingjunni; hún veldur okkur jafnvel óþarfa áhyggjum ef við
hugsum of mikið um hana. Þá tel ég að þjáningin hafi jákvæðan flöt; hún veldur
jafnan hugarórum (hvort sem er vegna skorts á fullnægju eða leiða); hún ýtir við
okkur, skerpir dómgreind og skilar sér í ákveðnu ferli og framvindu. Hið sama á
við um óttann og bölið; þau fá okkur til þess að standa saman sem vinir, fjölskylda
og þjóð.
Þjáning sökum leiða sem maðurinn hneigist til er að mínu mati fyrst og fremst
persónubundin. Vitrænn viljinn er þess eðlis að hann kýs leiðann; hann ákveður
hvað hann vill af nauðsyn. Þá felur leiðinn í sér svartsýna mynd af veruleikanum,
en svartsýni er hugarástand og jafnframt afstaða til lífsins; lífið sjálft er erfitt eða
leiðinlegt. Leiðinn staðfestir einfaldlega að það er manninum eðlislægt að vilja
og vera virkur; hann bendir til þess að okkur er ætlað að reyna á okkur og hafa
fyrir hlutunum.
Margar ástæður geta legið að baki leiða mannsins (sem verða ekki tíundaðar
hér); það skal hins vegar áréttað að leiðinn og viljaleysið fara einnig í ákveðið ferli
og leiðinn varir ekki endalaust. Leiðinn getur verið hvati til þess að gera eitthvað
nýtt, sem er jákvætt í sjálfu sér. Í leiðanum má sjá tækifæri og ný viljamynstur; ef
mér til að mynda leiðist í vinnunni þá reyni ég að skipta um vinnu. Schopenhauer
bendir sjálfur á að leiðinn fái okkur til þess að sækjast eftir félagsskap hvert við
annað og jafnvel þá sem okkur þykir síst vænst um.18 Ótal möguleikar geta því
opnast í leiðanum.
Af þessu er ljóst að skorturinn fer ávallt í ferli og þarf ekki nauðsynlega að vera
þjáningarfullur. Hann er fyrst og fremst hvati til að aðhafast, sem getur bæði verið
sársaukafullur og ánægjulegur. Hann er upphaf á tilteknu ferli athafna okkar sem
fer í ófyrirsjáanlegan farveg allt eftir því hvernig veruleikanum vindur fram. Rétt
er að árétta að við getum aldrei tekið viljann út úr því samhengi sem hann birtist
í og niðurnjörvað hann í eina merkingu (skort) og eina tilfinningu (þjáningu).
Þá þekkjum við ekki viljann í sjálfum sér, sem er blindur og brigðull í senn; það
18 Schopenhauer 2008: 367.