Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 179
Hið margslungna sjálf: Sjónarhorn reynslu og fræða 179
Færum okkur nú um set yfir í rannsóknir á tilfinningum. Þar hefur lengi tíðk-
ast að greina á milli frumlægra tilfinninga á borð við gleði, ótta, reiði og sorg
og flóknari tilfinninga eins og blygðunar, sektarkenndar og afbrýðisemi. Síðar-
nefndi hópurinn er oft kenndur við sjálfsmeðvitaðar eða félagslegar tilfinningar.
Um þessar mundir stendur mikil deila um það hversu snemma í þroskaferlinu
þessar flóknari tilfinningar koma fram, og þar að auki er deilt um það hvers konar
hugræna úrvinnslu þær feli í sér. En menn eru flestir á einu máli um að til að geta
greint þessar tilfinningar þurfi maður að vita hvað það er að vera sjálf. Eins og
segir í nýlegri kennslubók á þessu sviði: „Það er ekki hægt að kanna sjálfsmeðvit-
aðar tilfinningar án þess að gera tilraun til að klæða sjálfið í hugtök ásamt hinum
mörgu hliðum þess og hlutverki þess í tilurð tilfinninga.“17 Sú skoðun er útbreidd
að sjálfsmeðvitaðar tilfinningar feli í sér sjálfsíhugun og sjálfsmat. Sumir líta svo
á að munurinn á blygðun og sektarkennd sé t.d. sá að blygðun feli í sér neikvætt
mat á heildarsjálfi eða heildstæðu sjálfi manns sjálfs, en sektarkennd vísi aftur á
móti til neikvæðs mats á tiltekinni athöfn. Gera mætti ýmsa fyrirvara við þessa
uppástungu en það sem vakir fyrir mér hér er einvörðungu að benda á að margir
sálfræðingar kysu að halda því fram að þegar ætlunin er að greina muninn á
blygðun og sektarkennd verði að vísa til sjálfsins.
Sjálfið hefur einnig komið til tals í leitinni að því sem kalla mætti hinn heilaga
kaleik hugrænna taugavísinda, þ.e. þeim taugabúnaði sem svari til meðvitund-
arinnar. Í því sambandi er rétt að varpa því fram hvort skynsamlegt sé að skilja
að spurningarnar sem hér eru í húfi með því að leita fyrst að þeim taugabúnaði
sem svarar til upplifunarinnar og takast síðan á við þá spurningu sem virðist mun
flóknari og dularfyllri og varðar þann taugabúnað sem svarar til sjálfsins. Sumir
hafa algjörlega snúið baki við þessari aðferð. Antonio Damasio tekur t.d. svo til
orða: „Ef ‚sjálfsvitund‘ er skilin sem ‚meðvitund með tilfinningu fyrir sjálfi‘ fellur
öll mannleg meðvitund óhjákvæmilega undir hugtakið – þá er hreinlega engin
meðvitund af öðrum toga til.“18
Árið 1913 notaðist Karl Jaspers við hugtakið Ichstörungen (sjálfsraskanir) í
greinargerð sinni fyrir geðklofa. Víðtækt samkomulag ríkir um þá staðreynd að
ýmis þeirra einkenna geðklofa sem helst hefur verið veitt athygli feli í sér grund-
vallarbreytingar á tengslum manns við eigin hugsanir, athafnir, skynjanir og til-
finningar, svo og á stjórn manns á þessum þáttum. Eins og franski geðlæknirinn
Minkowski orðaði það síðar: „Vitfirringin […] á ekki rætur í því að dómgreindin,
skynjunin eða viljinn raskist, heldur í því að innsta formgerð sjálfsins gengur úr
lagi.“19 Í þeirri deilu sem nú stendur yfir halda t.d. Josef Parnas og Louis Sass uppi
vörnum fyrir þessa nálgun. Þeir halda því meira að segja fram að ýmsar myndir
sjálfsröskunar, sem koma fram strax í aðdraganda sjúkdómsins, geti átt þátt í að
orsaka sjúkdóminn og þannig megi að hluta til rekja til þeirra skýringuna á þeim
einkennum geðveikinnar sem á eftir fylgja.20
17 Campos 2007: xi.
18 Damasio 1999: 19.
19 Minkowski 1997: 114.
20 Sass og Parnas 2003: 428.