Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 213
Skotið yfir markið? 213
félags- og liðssöngvar), ballettar, kvikmyndir, leikrit og íþróttaumfjöllun fjölmiðla.
En þetta liggur allt utan þess sviðs sem rannsóknin tekur til þótt vissulega verði
spennandi að rannsaka það betur síðar.
Umræða og tilgátur
Almennt virðist það svo að íslenskar nútímasagnabókmenntir gefi íþróttum lítinn
gaum, óháð því hversu háan sess þær skipa í raun í alþýðumenningu þjóðarinnar,
og geri þær að jaðarumræðu, svipað og málefni sveitarstjórna eða umferðarmál
sem verðskuldi ekki bókmenntalega umfjöllun eða greiningu. Sé sú raunin, þ.e.
að samtímahöfundar sjái ekki í íþróttunum nægilega vitsmunalega eða listræna
örvun, er það í mikilli mótsögn við viðhorf höfunda Íslendingasagna sem voru
mjög uppteknir af afrekum íþróttahetjanna eins og áður hefur komið fram. Fá-
einir nútímahöfundar hafa sterka, gagnrýna afstöðu til íþrótta en slík viðhorf má
raunar einnig finna í fornsögunum, samanber örlög hetja eins og Grettis sterka.96
Þær íslensku bókmenntir sem fjalla í nægilegum mæli um íþróttir til að geta
kallast „íþróttabókmenntir“ eru hins vegar fullar af siðferðisdygðum í anda þess
sem lesa má um í fornum grískum og íslenskum hetjusögnum. Það merkir að
orðræða íslenskra nútímabókmennta tekur lítið tillit til hinnar hömlulausu ein-
staklingshyggju og hinna algengu einstaklingslasta sem finna má á meðal fólks í
íþróttum á Vesturlöndum. Hvers vegna? Ekki verður reynt hér að leita skýringa á
þessum mun eða ósamræmi hér. Hins vegar er full ástæða til að ræða hvort líklegt
sé að þetta bendi til þess að siðferði íþrótta sé öðruvísi hér á landi en erlendis.
Eru lýsingar bókmenntanna ef til vill í meira samræmi við íslenskan raunveru-
leika íþróttanna en erlendan? Og ef svo er, er þá líklegt að einstaklingshyggja og
sjálflægni nútímans sé almennt minni hér á landi en meðal annarra vestrænna
þjóða?
Engar teljandi rannsóknir hafa verið gerðar á íþróttasiðferði á Íslandi nútímans,
hvorki af fræðimönnum á sviði íþróttafræða né annarra fræðigreina, siðfræði,
heimspeki, guðfræði, uppeldisfræði eða annarra félags- eða mannvísinda. Engu
verður því slegið föstu um það. Þar af leiðandi er heldur ekki unnt að bera sam-
an siðferðið í íslenskum íþróttaveruleika og öðrum vestrænum íþróttaveruleika.
Fjölmargar sögur um siðferðisbrot og lesti af ýmsu tagi hér á landi breyta engu
um það. Hins vegar má leiða að því líkur að viss samsvörun sé fyrir hendi á þessu
sviði sem mörgum öðrum, vegna skyldleika samfélaganna og menningar þeirra
og lífsviðhorfa.
Áður hefur verið minnst á það álit virtra nútíma félagsfræðinga á borð við
Anthony Giddens og Charles Taylor að nútíminn í vestrænum samfélögum hafi
þróast mjög í átt frá sammannlegum viðhorfum í átt til einstaklingshyggju og
sjálflægni.97 Þá má spyrja: Eiga þessar kenningar við um Ísland? Vissulega er
margt sem bendir til sérstöðu Íslands, t.d. meint stéttleysi samfélagsins, smæð þess
96 Guðmundur Sæmundsson 2005b.
97 Giddens 1991 og 1994: Taylor 1989.