Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 55
Andleg velferð mannkyns 55
einmitt femínistar konum“, spyrja þær Patai og Koertge, „að neita að láta þrúgandi
hugmyndafræði þagga niður í sér?“61 Sommers gerir greinarmun á þeim sem hún
nefnir kyngervisfemínista (e. gender feminists) annars vegar og jafnréttisfemínista
(e. equity feminists) hins vegar. Hún lýsir sjálfri sér sem jafnréttisfemínista.62 Jafn-
réttisfemínistar krefjast algers jafnréttis karla og kvenna – jafnra tækifæra, en ekki
jafnra útkoma – en róttækir femínistar telja að til að konur öðlist frelsi og jafnrétti
nægi ekki jafnrétti (jöfn tækifæri) heldur þurfi að rífa feðraveldið (e. patriarchy)
upp með rótum. Feðraveldið hafi mótað sögu og samtíð, vísindi og listir, hugsun
okkar og orðfæri. Við þurfum því, samkvæmt þessari speki, að endurskoða og
jafnvel endurskapa vísindi og listir, breyta hugsunum okkar og öllu tungutaki
ef við viljum í alvöru ná markmiðum kvenfrelsisbaráttunnar. Mér sýnist Patai
og Koertge einkum beina spjótum sínum að róttækum kyngervisfemínisma þótt
þær ræði oftast um femínisma án fyrirvara. Eindregnir femínistar ættu því að
geta tekið undir gagnrýni þeirra.63 Markmið þeirra er ekki heldur að gagnrýna
allar kvennafræðideildir bandarískra háskóla.64 Ég fylgi dæmi Patai og Koertge
og ræði í framhaldinu um femínisma, femínisma í kvennafræðum og femíníska
kvennafræði en bið lesendur að hafa ofangreinda fyrirvara í huga.65
Tilgáta mín um dæmin er tvíþætt. Hún er annars vegar sú að í báðum til-
vikum ríki hóphugsun og andrúmsloft óttans af því tagi sem einkennir samfélög
þar sem fólk býr ekki við andlega velferð. Hins vegar held ég því fram að rætur
andrúmsloftsins séu í grunninn hinar sömu og hjá Mill: skortur á hugsunarfrelsi
og málfrelsi og skortur á gagnrýninni hugsun. Viðkomandi einstaklingar hafa
ekki sett sig í spor þeirra sem líta málin öðrum augum, þeir forðast átök, leyfa
öðru en sannleiksástinni að ráða við skoðanamyndun, reyna að útiloka aðra frá
því að kynna sér gagnrökin, verða sjálfir illa fyrir barðinu á hugmyndafræði sinni,
o.s.frv. Skoðum fyrst hreyfinguna í kringum bældar minningar.
Það er mikilvægt rannsóknarefni hvernig og hvers vegna gagnrýnin hugsun var
útilokuð í þessari hreyfingu. Ein ástæðan tengist sjálfu viðfangsefninu, meintum
fórnarlömbum kynferðislegrar misnotkunar. Það var beinlínis talið rangt að draga
í efa orð þeirra sem lifað höfðu slíka glæpi af (e. survivors). „Trúðu fórnarlambinu
[survivor]“, ráðleggja Bass og Davis ráðgjöfum á þessu sviði. „Jafnvel þótt hún
efist stundum um sjálfa sig, jafnvel þótt minningar hennar séu óljósar, jafnvel þótt
það sem hún segir þér hljómi of öfgakennt, trúðu henni.“66 Og þær brýna ráðgjaf-
ana til að vera staðfastir í trúnni:
Þú verður að trúa því að skjólstæðingur þinn hafi verið misnotuð kyn-
ferðislega, jafnvel þótt hún efist stundum um það sjálf. Efinn er hluti af
ferlinu að horfast í augu við misnotkunina. Skjólstæðingur þinn þarf á
því að halda að þú sért stöðugur í trúnni á að hún hafi verið misnotuð.
61 Patai og Koertge 2003: xx.
62 Sommers 1995: 19–22, 134–135.
63 Það er einmitt þetta sem mér virðist Joan Mandle (2000) gera.
64 Patai og Koertge 2003: xxiii–xxiv.
65 Um gagnrýni á Patai sjá t.d. yfirlit í Nathanson og Young 2006: 269–308, 573–585.
66 Bass og Davis 2002: 316. Sjá umræðu í Ofshe og Watters 1994: 21.