Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 76
76 Jakob Guðmundur Rúnarsson
2) að hugmynd Kants um að „góður vilji“, og einungis góður vilji, hafi
skilyrðislaust siðferðilegt gildi í sjálfu sér standist ekki skoðun;
3) að ekki sé hægt að gera strangan greinarmun á skyldu og tilhneig-
ingu, og siðleg breytni sé ekki nauðsynlega breytni í samræmi við
skyldu;
4) að kenning Kants um að skylda sé grundvöllur siðlegrar breytni feli
engu að síður í sér hugmynd um siðferðilega eftirsóknarvert takmark
á borð við hamingju eða velferð;
5) að hið skilyrðislausa skylduboð feli nauðsynlega í sér nytjahyggju þar
sem ekki sé hægt að meta hvort það lögmál sem tiltekin breytni er í
samræmi við sé gott eða réttlátt nema taka tillit til afleiðinga breytn-
innar og þess markmiðs sem lögmálið felur í sér.
Atriði 3-5 fela að mörgu leyti í sér það sem kalla mætti hefðbundna gagnrýni á
siðfræði Kants og endurspegla m.a. það viðhorf Spencers að grundvöllur mann-
legs siðferðis sé sálfræðilegur, og að siðferðilegt réttmæti tiltekinnar breytni sé
háð afleiðingum hennar. Atriði 1 hverfist um þróunarkenningu Spencers sjálfs,
sem hann setti fram sem algilt lögmál jafnt á sviði huglægra og hlutlægra fyr-
irbæra, og er svo að segja grundvöllur allrar heimspeki hans og undirskilin for-
senda allrar gagnrýni hans.3 Atriði 2 beinir hinsvegar athyglinni að hugmynd
Kants um „góðan vilja“ sérstaklega.4 Í framhaldinu verður litið nánar á þann hluta
gagnrýni Spencers þó að öll atriðin skarist að einhverju leyti.
Spencer byggir gagnrýni sína á fjórum tilvitnunum fengnum úr upphafi
Grundvallar að frumspeki siðlegrar breytni (1785). Í íslenskri þýðingu verksins eru
umrædd brot svohljóðandi:
i) „Það er yfirleitt ekkert í heiminum, né heldur er mögulegt að hugsa
sér neitt utan hans, sem telja má gott fyrirvaralaust, nema góður
vilji.“5
ii) „Góður vilji er ekki góður vegna þess sem hann veldur eða kemur í
verk, né heldur vegna þess hversu vel honum tekst að ná settu marki,
heldur er hann einungis góður vegna þess að hann vill, þ.e. vegna
þess að hann er góður í sjálfum sér, og sé litið á hann sem slíkan á
að meta hann án samjöfnuðar langt umfram þá hluti sem hann fær
3 Spencer 1897: 317–411. Í sinni einföldustu mynd má segja að þróunarlögmál Spencers kveði á um
að öll fyrirbæri þróist frá því að vera einföld og einsleit yfir í að vera flókin og fjölbreytt og að
orsök þróunarinnar sé fólgin í eðlislægri sókn allra fyrirbæra eftir jafnvægi.
4 Ekki verður séð að gagnrýni Spencers sé sérstaklega knýjandi að öðru leyti en því sem snýr að
hugmynd Kant um „góðan vilja“ og frá sjónarhóli samtímans verður hún í heild sinni að telj-
ast nokkuð úr sér gengin. Sjálfur viðurkennir Spencer að hafa ekki verið sérstaklega kunnugur
verkum Kants þegar hann mótaði skoðanir sínar og ekki verður betur séð en að Spencer hreinlega
misskilji eða rangtúlki Kant að ýmsu leyti. Til að mynda heldur hann því fram að í kenningu
Kants felist sú hugmynd að siðgæði manna fari meira eða minna eftir því hversu sterka tilhneig-
ingu skyldan þarf að yfirstíga. Breytni samkvæmt skyldu er því manninum nauðsynlega óljúf og
felur einungis í sér ytra boðvald. Sjá Spencer 1891: 119.
5 Kant 2003: 98.