Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 111
Heimspeki Lotzes og tengsl hennar við fyrri og síðari heimspeki 111
að og ryðja úr vegi hindrunum þess að við getum komist að viðfangsefninu sjálfu.
En eftir að það hefur verið gert og viðfangsefnið er í sjónmáli, þá ræðst aðferðin
alltaf af því hvernig best er að afla þekkingar á þessu tiltekna sviði, sem þarf
ekki að vera sú sama fyrir öll svið. Aðferðir okkar við þekkingaröflun hljóta því
ávallt að vera mismunandi, allt eftir viðfangsefninu, og staðlaðar aðferðir verða til
við ákveðinn hóp viðfangsefna. Þannig hefur stærðfræðin myndað sér ákveðnar
aðferðir, og sömuleiðis eðlisfræðin. En aldrei hefur verið rætt um almenna aðferð
til að leysa öll stærðfræðilega vandamál, eða um að smíða vél sem getur leyst
öll hugsanleg vandamál stærðfræðinnar, jafnvel þau sem ekki er einu sinni vitað
um. Hið sama á við um heimspekina, sem Lotze telur til vísinda; hann vitnar í
ummæli höfð eftir Aristótelesi þegar nemandi hans Alexander mikli bað hann
um auðvelda leið til að læra rúmfræði, en Aristóteles á að hafa svarað að fyrir
konunga sé engin sérstök leið í vísindum.
Alltaf þegar menn hafa hengt sig í einhverja eina almenna rannsóknaraðferð
hefur það að mati Lotzes leitt til þvingaðra niðurstaðna. Aðferðin lætur viðfangs-
efnið lúta geðþóttaákvörðunum og færir okkur niðurstöður sem eru ekkert annað
en almennt skraut, á meðan sjálft verkið var unnið með aðferðum sem eru betur
aðlagaðar að eðli vandamálanna sjálfra. Lotze líkir leitinni að einhverri almennri
aðferð heimspekinnar við þann heigulshátt sem birtist í að taka ástardrykk til að
gefa ástríðunum lausan tauminn án þess að hafa hugrekki til að beisla þær með
eigin mætti. Okkur þyrstir eftir almennum rökreikningi sem gæti létt af okkur
þeirri byrði að þurfa að leggja hausinn í bleyti í hvert skipti. En leitin að slíkri vél
hefur verið árangurslaus; engin vél hefur verið fundin upp sem gerir okkur kleift
að leysa öll vandamál lífsins í einu. Þegar öllu er á botninn hvolft er það maðurinn
sjálfur sem verður að stjórna lífi sínu og haga því eins og best hann getur.
Lotze heldur því fram að
sérhverjar framfarir hugmynda og sérhver aðferð er góð að svo miklu
leyti sem hún lagar sig á hverju andartaki að eðli þess hlutar sem hún er
að rannsaka og að því sérstaka markmiði sem sú rannsókn hefur; að við
megum aldrei láta undir höfuð leggjast að beita nýrri sóknaraðferð þegar
andstæðingurinn breytir um eðli.64
Sumir kunna að spyrja sig hvort Lotze vilji þá leggja heilbrigða skynsemi til
grundvallar heimspeki, en hann spyr á móti hvort heilbrigð skynsemi hafi ekki
hvort sem er alltaf verið mælikvarði heimspekinnar. Hann bendir á að mörg
heimspekikerfi hafi verið sett fram er fullvissa okkur um að þau hafi komist að
sannindum sem að sögn voru fundin með djúptækum aðferðum reistum á enn
dýpri grundvallarreglum, og að þetta sé eina leiðin til að komast að þessum sann-
indum. En þessi kerfi rykfalla í hirslum heimspekisögunnar sem menn hafa ein-
ungis áhuga á fyrir forvitnis sakir vegna þess að menn fundu enga leið til að stað-
festa þau með vísan til heilbrigðrar skynsemi, en hafa ekki unnið sér varanlegan
64 Sama rit: CXVIII.