Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 37
Andleg velferð mannkyns 37
Frelsi og andleg velferð
Óþarfi er að velkjast í vafa um hver Mill telur höfuðrök sín vera fyrir hugsunar-
frelsi og málfrelsi í Frelsinu því hann dregur þau saman á tvo vegu í síðasta hluta
annars kafla. Í fyrsta lagi lýsir hann niðurstöðu sinni. Orðrétt er hún svohljóð-
andi:
Við höfum nú séð, að hugsunarfrelsi og málfrelsi eru ófrávíkjanleg skil-
yrði andlegrar velferðar [mental well-being] mannkyns, en á andlegri vel-
ferð þess byggir öll önnur velferð.2
Þessi niðurstaða, sem ég mun einfaldlega vísa til sem meginniðurstöðu kaflans, er
tvíþætt. Annars vegar eru hugsunarfrelsi og málfrelsi sögð ófrávíkjanleg skilyrði
andlegrar velferðar mannkyns og hins vegar er öll önnur velferð mannkyns sögð
byggjast á andlegri velferð. Í öðru lagi, og í beinu framhaldi, sundurgreinir Mill
rök sín nánar í fjórum liðum. Þetta eru fjórar ástæður sem hann telur sig hafa fyrir
meginniðurstöðunni. Þær eru eftirfarandi:
Í fyrsta lagi getur skoðun, sem bannað er að láta í ljósi, verið rétt, að því
er við bezt vitum. Ef við neitum þessu, göngum við að því vísu, að við
séum sjálf óskeikul. Í öðru lagi getur nokkur sannleikur verið fólginn og
er einatt fólginn í rangri skoðun, sem bannað er að láta í ljósi. Og þar sem
almenn eða ríkjandi skoðun í hverju máli er sjaldnast allur sannleikurinn,
komast aðrar hliðar sannleikans einungis á framfæri við átök andstæðra
skoðana. Í þriðja lagi kann viðtekin skoðun ekki einungis að vera rétt,
heldur allur sannleikurinn. En jafnvel þótt svo sé, munu flestir þeir, sem
henni fylgja, taka að aðhyllast hana sem hégilju og missa sjónar á skyn-
samlegum forsendum hennar, nema hún mæti virkri og öflugri andstöðu.
Og það, sem meira er: í fjórða lagi er hætt við, að inntak skoðunarinnar
gleymist eða veikist og glati lifandi áhrifum sínum á hugsun manna og
breytni. (108–109, leturbreytingar mínar)
Fyrstu rökin eru gjarnan nefnd óskeikulleikarökin en samkvæmt þeim gengur sá
sem bannfæra vill skoðun út frá því að hann sjálfur sé óskeikull. Önnur rök-
in hafa verið nefnd sannleiksrökin en þau lýsa venslum hugsunarfrelsis og mál-
frelsis annars vegar og sannleikans eða sannrar skoðunar (e. true belief) hins vegar.
„[A]ðrar hliðar sannleikans“, skrifar Mill, komast „einungis á framfæri við átök
andstæðra skoðana“ (108). Þriðju rökin eru stundum kennd við eiginlega sannfær-
ingu eða skynsamlega vissu (e. rational assurance) og snúast um vensl hugsunar-
frelsis og málfrelsis og þess að skilja forsendur skoðana sinna. Einungis sá sem
þekkir og skilur forsendur þeirrar skoðunar sem hann aðhyllist hefur, samkvæmt
þessum rökum, skynsamlega vissu fyrir henni. Þessi rök eru því líka stundum
2 Mill 1859/2009: 108, leturbreyting mín; CW 18: 257. Ég hef gert smávægilega breytingu á þýðing-
unni, sett „mannkyns“ í stað „mannkynsins“ sem er nær frumtextanum. Í framhaldinu er vísað til
Frelsisins með blaðsíðutali í meginmáli.