Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 225
Skiptaréttlæti 225
gildir þátt takendur í samvinnu samfélagsins, og ekki einfaldlega mann-
verur óháð hvaða gildishlöðnu hugmynd sem er.4
Í kenningu Rawls skiptir þessi greinarmunur ólíkra gæða miklu máli. Þannig er
það skipting frumgæða, en ekki hvaða gæða sem er, sem menn ráða ráðum sínum
um undir fávísisfeldi þegar lagður er grunnur að stofnunum samfélagsins. Ég ætla
ekki að gera neina sérstaka grein fyrir kenningu Rawls, ég hef aðeins hugsað mér
að nota nokkrar af hugmyndum hans til að setja hugmyndina um kringumstæður
réttlætis í víðara samhengi og velta því svo fyrir mér hvað réttlæti í slíkum kring-
umstæðum sé. Til þess ætla ég raunar að segja aðeins meira um Rawls.
Þau frumgæði sem Rawls tilgreinir eru (i) tiltekin grundvallarréttindi sem eru
forsendur siðferðilegs lífs í samfélagi, (ii) ferðafrelsi og atvinnufrelsi, (iii) völd
og forréttindi sem fylgja embættum og hlutverkum, (iv) tekjur og auður og (v)
félagslegar forsendur sjálfsvirðingar.5 Þegar spurt er um hvort skipting gæða í
tilteknu samfélagi sé réttlát, þá myndi Rawls segja að það væru gæði af þessu tagi
sem ætti að spyrja um en ekki hvaða tilfallandi gæði sem er. Ástæðan er sú að
við upphaf leiks er það dreifing þessara gæða sem er ráðandi um það hvort leikið
verður af sanngirni eða ekki.6
Til hvers eru þessi gæði?
Hagfræðingurinn og heimspekingurinn Amartya Sen segir að kenning Rawls
um réttlæti sé bæði langsamlega áhrifaríkasta og mikilvægasta kenning um rétt-
læti sem komið hefur fram á seinni tímum.7 Hann er samt mjög gagnrýninn á
hugmyndir Rawls, sér í lagi á hugmyndina um frumgæði og hlutverk hennar í
kenningu um pólitískt réttlæti.8
Gagnrýni Sens byggist á því að þau frumgæði sem Rawls nefnir eru ekki
takmark í sjálfu sér heldur einungis leið eða tæki til að ná settu marki. Sen segir
að með því að gera frumgæðin að grundvelli pólitísks réttlætis – og þar með
grundvelli skiptaréttlætis – þá missi menn sjónar á tilteknum atriðum sem skipta
máli, t.d. því að fólk á mjög misauðvelt með að umbreyta frumgæðum í annars-
konar gæði. Þannig segir Sen á einum stað:
4 Rawls 2001: 58.
5 Sama rit: §17. Sjá einnig Vilhjálm Árnason 2008: 280.
6 Sjá Ólaf Pál Jónsson 2009.
7 Sen 1992: 75.
8 Sömu sögu er að segja um Mörthu Nussbaum, sem gagnrýnir kenningu Rawls á mjög upplýsandi
hátt í bókinni Frontiers of Justice. Gagnrýni Sens og Nussbaum er raunar tvíþætt. Annars vegar
varðar hún sjálfa hugmyndina um frumgæði og hlutverk þeirra í kenningu um réttlæti, og hins
vegar þá hugmynd að það fólk sem mætist undir fávísisfeldi og grunnstofnanir samfélagsins eru
miðaðar við er venjulegt fólk sem er fyllilega virkir aðilar að samfélagi sem byggist á gagnkvæm-
um ávinningi. Nussbaum gagnrýnir þessa hugmynd fyrir að útiloka t.d. mjög fatlaða einstaklinga
frá því að vera aðilar réttlætisins til jafns við aðra, þótt þeir kunni vissulega að njóta hinna réttlátu
stofnana. Í þessari grein leiði ég þessa seinni gagnrýni Sens og Nussbaum alveg hjá mér, enda er
ætlunin ekki að halda fram kenningu Rawls sérstaklega, einungis að nota nokkrar grundvallar-
hugmyndir frá honum til að varpa ljósi á hvað skiptaréttlæti feli í sér.