Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 63
Andleg velferð mannkyns 63
Staðtölur um glæpi gegn konum sem hún tínir til úr ritum femínista eru sumar
svo svakalegar að maður veigrar sér við að hafa þær eftir. Sem dæmi má nefna
endurteknar fullyrðingar um að á ári hverju séu tæplega fjórar milljónir kvenna
barðar til bana í Bandaríkjunum, að ofbeldi sé megin dánarorsök kvenna og að
um 25% kvenna sem leita á neyðarmóttöku spítala séu þar vegna barsmíða karla.111
Eftirgrennslanir Sommers hjá landlæknisembætti Bandaríkjanna leiddi í ljós að
um 1%, ekki 25%, kvenna á neyðarmóttökum eru þar vegna barsmíða karla. Helsta
dánarorsök kvenna í Bandaríkjunum er líkt og karla hjartasjúkdómar.112 Kreddan
um konur sem nokkurs konar eilífðarfórnarlömb markar alla sagnfræði og sam-
félagsfræði femínista í kvennafræðum. Hún er aldrei lögð í dóm reynslunnar, ein-
ungis er safnað gögnum sem styðja hana. Önnur kredda, sem þær stöllur gagnrýna
harðlega, kveður á um að munurinn á konum og körlum sé ekki náttúruleg stað-
reynd heldur félagslegur tilbúningur (e. social construction). Þessa kreddu nefna þær
til marks um að kvennafræðingar hafa flestir afar litla þekkingu á raunvísindum,
og raunar félagsvísindum einnig; afstaða þeirra til líffræði sé bókstaflega hlægileg.
Enn önnur kreddan sem þær sjá í femínískum kvennafræðum er sú hégilja að
allar vísindakenningar og öll vísindalögmál Vesturlanda séu í grundvallaratriðum
bjöguð af feðraveldinu. Þessi kredda valdi því að afstaða femínískra kvennafræð-
inga til vísindakenninga og lögmála vísindanna standist sjaldnast skoðun.113 Svar
femínista við gagnrýni hér er hið sama og fyrr. Þeir benda á að hið sama gildi um
alla aðra, öll fræði hvíli á tiltekinni heimssýn, tiltekinni hugmyndafræði. „Byggja
ekki allar akademískar deildir á hugmyndafræði?“, spyr einn gagnrýnandi Patai.
„Líða ekki allar háskóladeildir fyrir rifrildi og pólitísk átök? Gera ekki fremstu
fræðimenn í flestum deildum ráð fyrir því að nemendur haldi sig við rétta „línu“
og er það ekki eina von þeirra til að ná langt í fræðunum?“114 Hugmyndin virðist
ekki einungis vera sú að ofurselja tiltekin fræði hugmyndafræði og hagsmunum
heldur beinlínis að rífa upp með rótum sjálfa hugmyndina um hlutlæg vísindi og
hlutlaus fræði.
Þriðja atriðið sem ég vil nefna úr greiningu Patai og Koertge er sú tilhneig-
ing femínista að gera kyn, þjóðfélagsstöðu, kynþátt og kynhneigð „að töfralykli
að öllum spurningum um sannleika og ábyrgð“.115 Gert er ráð fyrir því að staða
viðkomandi einstaklings innan tiltekins hóps ákvarði öll rök hans og alla breytni
hans.116 Mat á rökum og breytni annarra er algerlega bundið við að skoða stöðu,
kyn, kynhneigð og kynþátt viðkomandi. Í staðinn fyrir að fá umræðu um rök sín
og kenningar mega miðaldra hvítir (gagnkynhneigðir) karlar eiga von á að þeim
111 Sjá Sommers 2000: 48. Hún kallar staðtölur femínista haturs-tölfræði (e. hate-statistics). Sjá ýmist
viðtöl við hana og fyrirlestra á Youtube.
112 Sommers 2000: 49, 221 nmgr. 18. Sjá einnig Sommers 1994: 188–208 og fyrirlestra Sommers á
Youtube, t.d. „Violence Against Women“ (skoðað 30. ágúst 2012). Þegar ég samdi þennan hluta
ritgerðarinnar hlustaði ég á viðtöl í Rúv við þrjá karla sem hata klám. Einn þeirra, Thomas Bror-
sen Smidt, fullyrti að konur hvar sem er í heiminum hefðu ástæðu til að vera hræddar ef þær væru
einar á ferð eftir að rökkva tæki og heyrðu fótatak einhvers sem væri fyrir aftan þær.
113 Patai og Koertge 2003: 340–341.
114 Sama rit: 300–301.
115 Sama rit: 80.
116 Sama rit: 75.