Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 166
166 Simone de Beauvoir
honum fyrir því að „karlmenn séu meira og minna allir saurlífir“. Ein vinkona
mín spjallaði lengi við unga og fluggreinda vændiskonu á Beaujon-spítalanum,
sem byrjaði sem húshjálp og bjó með melludólg sem hún dýrkaði. „Allir karlmenn
eru saurlífir“, sagði hún, „nema minn. Það er þess vegna sem ég elska hann. Ef
ég kemst einhvern tímann að því að hann sé afbrigðilegur á einhvern hátt, þá
yfirgef ég hann. Í fyrstu heimsókn sinni þorir viðskiptavinurinn ekki alltaf að eiga
frumkvæðið, hann virðist eðlilegur, en þegar hann kemur aftur, þá byrjar hann
að biðja um ýmislegt … Þér segið að maður yðar sé eðlilegur. Sjáið nú til, þeir
eru allir afbrigðilegir á einhvern hátt.“ Vegna óeðlis þeirra hataði hún þá. Önnur
vinkona mín hafði kynnst náið vændiskonu í Fresnes árið 1943. Sú hélt því fram
að 90% viðskiptavina hennar væru á einhvern hátt afbrigðilegir, um 50% höfðu
svívirðilegar hneigðir til ungra drengja. Þeir sem létu í ljós of mikið hugarflug
skelfdu hana. Þýskur liðsforingi hafði beðið hana að ganga um nakin í herberginu
með blóm í fanginu á meðan hann líkti eftir fljúgandi fugli. Þrátt fyrir kurteisi
hans og gjafmildi kom hún sér alltaf undan þegar hún sá til hans. Marie-Thérèse
hafði ímugust á „kynórum“, þótt hún fengi mun hærri greiðslu fyrir slíkt en fyrir
venjulegar samfarir og þrátt fyrir að oft myndi slíkt útheimta minni fyrirhöfn
fyrir hana. Þessar þrjár konur voru sérstaklega gáfaðar og tilfinninganæmar.
Líklega áttuðu þær sig á því að um leið og þær gætu ekki lengur skýlt sér á bak
við vanagang starfsins, um leið og karlinn hætti almennt að vera viðskiptavinur
og yrði einstaklingur, þá yrðu þær fórnarlömb þess að vakna til meðvitundar og
óútreiknanlegs frelsis. Þá væri ekki lengur um að ræða einfaldan samning. Engu
að síður sérhæfa sumar vændiskonur sig í „kynórum“ því það gefur meira af sér.
Andúð þeirra á viðskiptavininum felur oft í sér stéttahatur. Hélène Deutsch segir
sögu Önnu í löngu máli. Hún var falleg, ljóshærð vændiskona, barnaleg og venju-
lega mjög blíð, en tók brjálæðisleg æðisköst gagnvart ákveðnum karlmönnum.
Hún kom úr verkamannafjölskyldu, faðir hennar drakk og móðir hennar var veik.
Þessi óhamingjusama sambúð varð til þess að hún fékk ímugust á fjölskyldulífi
og ákvað að giftast aldrei, þrátt fyrir að oft hefði hún fengið bónorð á starfsferli
sínum. Unga fólkið í hverfinu afvegaleiddi hana. Hún kunni vel við starf sitt, en
þegar hún veiktist af berklum og var send á spítala þróaði hún með sér heiftarlegt
hatur á læknum. Hinir „heiðvirðu“ karlmenn voru viðbjóðslegir í hennar augum.
Hún þoldi ekki kurteisi og alúð læknisins. „Er okkur ekki ljóst að þessir karlmenn
láta grímu vinsemdar, virðingar og sjálfstjórnar falla eins og ekkert sé og haga sér
svo eins og skepnur?“ sagði hún. Fyrir utan þetta var hún í fullkomnu jafnvægi.
Hún skrökvaði því að hún væri með barn á brjósti, en sagði satt að öðru leyti.
Hún dó úr berklum. Annarri ungri vændiskonu, Júlíu að nafni, sem gaf sig öllum
strákum sem hún mætti frá 15 ára aldri, þótti aðeins vænt um fátæka og veikburða
karlmenn. Þeim var hún blíð og góð. Hinir voru fyrir henni „villtar skepnur sem
áttu allt illt skilið“. (Hún var haldin áberandi minnimáttarkennd sem orsakaðist
af ófullnægðri móðurhyggju: hún fékk heiftarleg angistarköst þegar hún heyrði
orðin móðir, barn eða önnur tengd orð.)
Flestar vændiskonur hafa lagað sig andlega að aðstæðum sínum. Það þýðir ekki
að þær séu fæddar siðlausar eða séu það erfðafræðilega, heldur finnst þeim, með