Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 44
44 Róbert H. Haraldsson
einstaklingseðlisins] …“. Mill horfir hins vegar ekki fram á veginn á þessum stað
í Frelsinu heldur til baka og segir: „Við höfum nú séð …“ (108). Hann notar rök-
semdafærslu sína um gildi einstaklingsþroskans úr þriðja kafla ekki til að komast
að þessari niðurstöðu. Sumir höfundar hafa jafnvel haldið því fram að Mill átti
sig hreinlega ekki á því að hann hafi getað styrkt rökfærslu sína í öðrum kaflanum
með þroskarökum þriðja kaflans. Fred R. Berger er í hópi þeirra sem leitast hafa
við að styrkja málfrelsisrök Mills á þann máta.32 Hvað sem segja má um þá til-
burði sýna þeir a.m.k. að rökfærslurnar í kafla tvö og þrjú eru aðgreindar, a.m.k.
á yfirborðinu. Vandinn við aðferð O’Rourkes er m.a. sá að hún beinir athyglinni
frá öðrum kafla Frelsisins og þá er mikil hætta á að menn missi sjónar á sumu af
því sem „andleg velferð mannkyns“ merkir og ekki síður á sumu af því sem felst í
þeirri andlegu meinsemd sem er andstæða andlegrar velferðar mannkyns. Fram-
setningarmáti Mills sýnir að við hljótum að snúa okkur að öðrum kafla Frelsisins
til þess að fá skýra mynd af andlegri velferð og andhverfu hennar. Annar vandi
við að setja einstaklingseðli í stað andlegrar velferðar er, eins og áður sagði, að
vísunin til mannkyns dettur oft út. O’Rourke gefur sér einfaldlega að andleg vel-
ferð mannkyns vísi á þroska einstaklingseðlisins eða velferð einstaklingsins. Þeir
sem eru hlynntir þeirri túlkun geta auðvitað haldið því fram að andleg velferð
mannkyns sé samanlagður þroski einstaklinganna sem mynda mannkynið. Allir
sem þekkja til verka Mills sjá að mikið er til í þeirri uppástungu. Á hinn bóginn
megum við ekki gefa okkur að þetta sé það eina sem orðalagið „andleg velferð
mannkyns“ merki í því samhengi sem hér um ræðir, meginniðurstöðu annars
kaflans.
Einstaklingseðlið, vitsmunaþroski og andleg velferð
Ekkert af ofansögðu sýnir að O’Rourke hafi rangt fyrir sér um að Mill telji hugs-
unarfrelsi og málfrelsi ófrávíkjanleg skilyrði einstaklingsþroskans. Ég hef ein-
ungis vakið nokkrar efasemdir um réttmæti þess að leggja „andlega velferð mann-
kyns“ algerlega að jöfnu við „einstaklingseðli“ í meginniðurstöðunni. Ljóst er að
Mill telur frelsi ófrávíkjanlegt skilyrði einstaklingsþroskans (116, 138), en í því
samhengi hefur hann að vísu í huga athafnafrelsi almennt, eða þá tegund frelsis
sem hann nefnir frelsi til vildar og viðleitni í fyrsta kaflanum (51). Annað sem
kann að styðja tilgátu O’Rourkes er að Mill telur að öll velferð mannkyns bygg-
ist á andlegri velferð sem, eins og við sáum, krefst hugsunarfrelsis og málfrelsis.
Að svo miklu leyti sem þroski einstaklingseðlisins er hluti af andlegri velferð, og
það er hann svo sannarlega að dómi Mills, mætti segja að hann hvíldi að umtals-
verðu leyti á hugsunarfrelsi og málfrelsi. Raunar virðist Mill beinlínis staðhæfa
að hugsunarfrelsi og málfrelsi séu ófrávíkjanleg skilyrði einstaklingsþroskans í
eftirfarandi tilvitnun sem O’Rourke tekur upp í umræðu sína:
Ekki svo að skilja, að hugsunarfrelsis sé eingöngu eða aðallega krafizt í
32 Sjá Berger 1984: 273.