Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 221
Skiptaréttlæti 221
Hugmyndin um velferðarkerfi sem öryggisnet er gjarnan sett fram sem krafa
um að allir hafi mannsæmandi kjör. Með tilvísun í mynd 1 má e.t.v. orða þessa
kröfu þannig að sem fæstir og helst engir hafi eignir á bilinu 0–1L. Þessi krafa
segir hins vegar ekkert til um það hvort eignadreifingarferillinn skuli vera kúpt-
ur eða íhvolfur. Velferðarkerfi gæti haft þau áhrif að eignadreifingarferill fyrir
samfélag hefði sömu lögun og í B en að hæsta súlan væri ekki á bilinu 0–1L
heldur á bilinu 1–2L.
Eignatilfærsla
Ég hef ekki sagt mikið um sjálfa hugmyndina um gæði, og ég ætla að leyfa mér að
halda áfram án þess að skýra hana nánar. Ég kem að henni aftur síðar, en gefum
okkur um sinn að hugmyndin sé nógu skýr eins og hún stendur. Þá er ekki úr vegi
að spyrja nokkurra spurninga um skiptingu þessara gæða.
(1) Hefur hver það sem honum ber?
(2) Er of mikill munur á þeim sem hafa minnst og hinum sem hafa
mest?
(3) Hafa þeir sem hafa minnst, of lítið?
Við hugum að fleiri spurningum seinna, en þessar eru hæfilega einfaldar til að
byrja með. Ef spurningu (1) er svarað neitandi, eða ef spurningu (2) eða (3) er
svarað játandi, þá virðist vera tilefni til að endurskoða hvernig gæðum samfélags-
ins er skipt. Hér vakna þá tvær spurningar:
(A) Hver má hafa afskipti af því hvernig gæðum samfélagsins er skipt?
(B) Á hvaða forsendum má endurskoða það hvernig gæðum samfélags-
ins er skipt?
Á Íslandi mega ýmsir hafa afskipti af því hvernig gæðum samfélagsins er skipt.
Foreldrar mega hafa afskipti af því hvernig gæðum barna sinna er skipt, atvinnu-
rekendur mega hafa afskipti af því hvernig margvíslegum gæðum á vinnustað er
skipt, og svo hefur sjálft ríkisvaldið víðtæk afskipti af því hvernig gæðum sam-
félagsins er skipt með því að leggja á skatt og reka velferðar- og menntakerfi.
Vinnumarkaðurinn og hagkerfið almennt hefur þó mest áhrif á eignadreifingu í
samfélaginu, en það er sá vettvangur þar sem fólk skiptist á vörum og þjónustu og
þar sem stór hluti þeirra gæða, sem fólk reiðir sig á, verður til.1
1 Þótt stór hluti gæðanna verði til í hagkerfinu er sá hluti sem verður til fyrir utan hagkerfið,
þ.e. í náttúrunni, hugsanlega enn stærri (Costanza o.fl. 1997; Boyd 2007). Ég fjalla um þessa
hlið á verðmætasköpun í bók minni, Náttúra, vald og verðmæti, einkum kafla 4, „Verðmæti og
mælikvarðar“.