Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 203
Skotið yfir markið? 203
aðeins sem einstaklings, heldur sem félagsveru. Fyrir honum mynda dygðir og lög
einnig einingu, gagnstætt því sem oft er reiknað með í nútímanum.39 Á margan
hátt eru dygðir Aristótelesar og lýsingar hans á þeim dæmigerðu persónum sem
eru prýddar þeim (eða skortir þær) keimlíkar þeim gildum sem lýst er í Íslend-
ingasögum.40 Alasdair MacIntyre orðar það þannig:
Hetjusamfélög, eins og þeim er lýst í kviðum Hómers eða sögum Íslend-
inga og Íra, kunna eða kunna ekki að hafa verið til; en sú skoðun að
þau hafi verið til skipti sköpum fyrir klassísk og kristin samfélög er skil-
greindu tilurð sjálfra sín sem uppgjör við hetjusamfélögin sem á undan
komu og lýstu gildum sínum sem afurðum slíks uppgjörs.41
Enginn kostur er að meta hvort Íslendingasögurnar, að svo miklu leyti sem þær
lýsa raunveruleik íþrótta hinna fornu hetja, gefi óbrenglaða mynd af þeim veru-
leika. Lýsingar þeirra eru enda bókmenntalegs eðlis en ekki af blaðamennsku- eða
sagnfræðitagi. Beinn þráður virðist þó greinilega liggja milli Íslendingasagna og
nútímahugmyndafræði um íþróttir og íþróttasiðferði.
Upphaf nútímaíþrótta á Íslandi má rekja til ungmennafélaganna sem störfuðu
að mestu á landsbyggðinni og voru þjóðernisleg, siðræn og uppeldisleg samtök. Í
íþróttum var megináhersla lögð á líkamlega reisn og djarflega framgöngu, ungt
fólk átti að vera hnarreist og hafa þróttmikið göngulag.42 Fegurð íþróttanna,
heiðarleiki og drengskapur í fornum anda voru grundvallardygðirnar. Leiðtogar
fyrstu íþróttafélaganna og íþróttasambandanna voru fyllilega sammála hinum
rómantísku fræðimönnum sem áður var minnst á. Hið sama átti við um kristna
íþróttaleiðtoga. Knattspyrnufélag KFUM, síðar Kf. Valur, var stofnað 1911. Leið-
togi þess predikaði fyrir drengjunum að þeir skyldu ávallt hafa í huga heiðarleika
í leik og starfi og að í íþróttum skyldi ríkja friður, agi, samstaða, fegurð og kraftur
en aldrei neitt ósæmilegt eða rangt.43
Hér er við hæfi að láta þessari sögulegu upprifjun lokið en snúa sér í staðinn
að veruleika íþrótta á Vesturlöndum nútímans. Sá veruleiki virðist gegnsýrður
nútíma einstaklingshyggju. Oft er vísað til nútímans sem „sjálfselskualdarinnar“.44
Þannig dýrki nútíminn færni og snilli hins sjálfhverfa einstaklings. Það séu aðeins
ánægjulegar aukaverkanir ef þessir hæfileikar leiða af sér atferli sem verður öðrum
að gagni. Félagslegur ábati er alltaf álitinn afleiðing en ekki hvati slíks atferlis.
Einstaklingshyggja nútímans kemur fram í ýmsum myndum en hún nær lengst
í kröfunni um að einstaklingunum beri fyrst og fremst að hugsa um sjálfa sig og
eigin hagsmuni, þar næst hagsmuni fjölskyldu og vina, skyldfólks og annarra sem
þeir sjálfir ákveða. Í íþróttum kemur þessi sjálflægni fram í ýmsum myndum. Þrátt
fyrir algengt þjóðrembutal stjórnmálamanna og íþróttaleiðtoga um að dygðir fyrri
39 Sama rit: 152.
40 Kristján Kristjánsson 1998.
41 MacIntyre 1981: 131.
42 Jón M. Ívarsson 2007: 25, 32, 44, 47, 54.
43 Sama rit: 107; Kf. Valur 2009.
44 Giddens 1991, 1994.