Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 33
Viljafrumspeki og bölhyggja Schopenhauers 33
að eitthvað skilar sér loks af nauðsyn; hlutirnir gerast einfaldlega. Afbyggingin er
eins konar framvinda veruleikans og felst í því að tiltekinni hugmynd eða miðju
er ýtt til hliðar (afmiðjun) fyrir tilstilli mismunarins og skilafrestsins þar sem ný
merking myndast – og veruleikinn fær á sig nýja mynd. Afbyggingin er alltaf í
aðsigi í sjálfu tungumálinu og felst meðal annars í tilfærslu hugtaka: Með því
að skipta orðinu skorti (á einhverju fyrir mig) út fyrir uppsprettu (að einhverju
til lífsins), opnast túlkunarmöguleikar og óvænt tengsl við veruleikann – en við
það skjótast skorturinn og þjáningin snyrtilega undan. Við fáum ósjálfrátt annað
sjónarhorn á viljann; samhengið leysist upp og viljaferlið fær á sig léttari blæ:
Viljinn verður fyrst og fremst virk orka þar sem ánægjan, vonin og eftirvæntingin
fær sitt rými. Að vilja er að upplifa.
Dæmið um skortinn sýnir hvernig hugtökin geta auðveldlega storknað í kloss-
fastri rökmiðju og einnig hvernig afbyggingin losar um túlkunina á viljanum og
rökmiðju hennar. Á bak við allan orðaforðann leynist ýmislegt, nefnilega allt það
sem er í vændum. Við lokum ekki svo glatt fyrir leikinn, fyrir víðáttuna og verð-
andina, og náum ekki röklegri stjórn á veruleikanum. Nýjar langanir, tilfinningar,
túlkanir og hugmyndir bíða okkar – og munu (vonandi) skila sér í nýrri merkingu
hlutanna.
Vilji og hugmynd í látlausri verðandi
Ljóst er að frumspekin um stöðugt vannærðan vilja og greiningin á inntaki hans
samkvæmt innsta eðli felur í sér rökmiðjaða kerfishugsun – og gegnsýrir svartsýna
hugmynd Schopenhauers um óumflýjanlega þjáningartilvist mannsins. En við
útskýrum hvorki mannsviljann né þjáninguna í eitt skipti fyrir öll, því merkingin
og sjálfsvitundin eru eins og áður sagði stöðugt á skilafresti í tímarúminu og því
ekki hægt að reikna með endapunkti. Við eigum hvorki að komast yfir skortinn
né fanga endanlegt ástand tilfinninga (hamingju eða þjáningu). Ef við gerðum það
þá værum við á einhverjum ekki-stað utan tíma og rúms eða í trúnaðarsambandi
við óskiptan vilja.
Bölhyggju Schopenhauers má skilja sem þrá eftir að hverfa til hlutanna sjálfra,
það er eins konar þrá eftir tímalausri nærveru við veruleikann þar sem hægt er
að stöðva viljann og hugsunina, þrá eftir sjálfljósri merkingu hlutanna, þrá eftir
að eiga hlutdeild í samsemdinni, í hinu óskipta og verða eitt með viljanum og
hugmyndinni. Hverfa þannig frá margræðni hlutanna og togstreitunni þar sem
okkur greinir stöðugt á. En við svæfum ekki viljann svo auðveldlega – og það
með rökhugsun einni saman. Viljinn er fyrst og fremst vilji til lífs og þrífst í
tíma og rúmi í fyrirbærafræðilegum og þekkingarfræðilegum skilningi; hann er
ástæða merkingar og heims hugmynda okkar í óútreiknanlegri framvindu. Allt
er háð endalausum leik táknmynda (og ótal túlkunum) óháð öllum röklegum
útreikningi. Orðaflaumurinn er aldrei hreinn og gegnsær og heimurinn í rauninni
hugmynd(ir).
Bölhyggja Schopenhauers er ein hugmynd um heiminn byggð á tvíhyggju
hugsunarinnar og er í raun smættun og einföldun á hinu margraddaða og tor-
skilda. Viljafrumspekin, grundvölluð á stöðugum skorti, er hvorki fullnægjandi