Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 171
Vændiskonur og lagskonur í efri stéttum 171
aldrei alveg hvað bíður hennar daginn eftir, því vopn hennar eru töfrum gædd
og töfrarnir eru duttlungafullir. Hún er hlekkjuð við velunnara sinn – eiginmann
eða ástmann – næstum eins fast og „heiðvirð“ eiginkona við mann sinn. Hún
skuldar honum ekki aðeins þjónustu í rúminu, heldur þarf hún einnig að umbera
viðveru hans, samræður, vini og ekki síst það sem sjálfsumgleði hans krefst. Með
því að kaupa handa hinni opinberu lagskonu sinni háhælaskó eða satínkjól er
velunnarinn að fjárfesta og vill fá vexti til baka. Með því að splæsa perlum og
pelsum á vinu sína er iðnjöfurinn eða framleiðandinn að sýna völd sín og auðæfi
í gegnum hana. Hvort sem konan er leið til að græða peninga eða afsökun til að
eyða þeim, þá er það sama ánauðin. Gjafirnar sem hún fær eru keðjur. Og eru
fötin og skartgripirnir sem hún ber í raun og veru hennar? Karlmaðurinn heimtar
stundum að fá þessa hluti til baka eftir sambandsslit, eins og Sacha Guitry gerði
svo glæsilega nýverið. Til að „halda í“ velunnara sinn án þess að neita sér um
munað, mun konan beita ýmsum brögðum, kænsku og ósannsögli, hræsni sem
vanvirðir hjónabandið. Ef hún er aðeins að gera sér upp þrælslund, þá verður
uppgerðin sjálf að þrældómi. Sú sem er falleg og fræg getur valið sér annan mann
ef núverandi herra fer að vera andstyggilegur. En fegurðin er áhyggjuefni, hún er
viðkvæmur fjársjóður. Lagskonan er afar háð líkama sínum og tíminn setur mark
sitt á hann miskunnarlaust. Baráttan við öldrunina tekur á sig sína átakanlegustu
mynd í hennar tilviki. Njóti hún mikillar virðingar getur hún komist af þótt and-
litið og líkaminn hrörni. En að hlúa að frægðinni, sem er hennar traustasta eign,
gerir hana berskjaldaða gagnvart verstu harðstjórn sem til er, almenningsálitinu.
Þrælahaldið sem Hollywood-stjörnurnar eru hnepptar í er vel þekkt. Líkaminn
er ekki lengur þeirra, framleiðandinn ákveður háralitinn, þyngdina, vaxtarlagið
og stílinn og til að móta andlitsfallið eru tennur dregnar úr. Megrunarkúrar, lík-
amsrækt, mátanir og förðun eru dagleg verk. Undir yfirskriftina „að sýna sig og
sjá aðra“ fellur að fara út að skemmta sér og daðra, einkalífið er ekkert annað en
hluti af opinbera lífinu. Í Frakklandi eru ekki til skráðar reglur um þessi mál, en sé
konan skynsöm og klár þá veit hún hvers „auglýsing“ krefst af henni. Fræg kona
sem neitar að beygja sig undir þær kröfur verður óumflýjanlega fyrir því að stjarna
hennar dofnar, hvort sem það gerist sviplega eða hægt og rólega. Vændiskonan
sem aðeins selur líkama sinn er jafnvel síður þræll en konan sem starfar við að
vekja hrifningu. Kona sem „hefur náð langt“ og hefur með höndum alvöru starf
þar sem hæfileikar hennar eru viðurkenndir – leikkona, söngkona eða dansari –
sleppur við lífsskilyrði lagskonunnar; hún getur verið mjög sjálfstæð. En flestar
lifa við ógnina allt sitt líf, þær þurfa linnulaust að viðhalda hrifningu almennings
og karlmanna á sér.
Konan sem þannig er haldið uppi, byrgir oft ósjálfstæði sitt inni í sér. Þar sem
hún er háð almenningsálitinu gerir hún sér grein fyrir gildi þess. Hún dáist að
„fína fólkinu“ og tileinkar sér lífstíl þess; hún vill vera metin út frá viðmiðum efri
stéttar. Sem sníkjudýr hinnar ríku yfirstéttar fylgir hún skoðunum þeirra; hún
„hugsar rétt“. Áður fyrr setti hún gjarnan dætur sínar í klausturskóla og þegar hún
fór sjálf að eldast sótti hún messur þar sem hún snérist til trúar með stæl. Hún
fylgir íhaldinu. Hún er of stolt yfir því að hafa komist til metorða í þessum heimi