Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 128
128 Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Jöfnunin á tækniöld
Hér er augljóslega ýjað að því að sú jöfnun sem Kierkegaard telur manninum
síst til heilsubótar og Heidegger sammælist honum um að dragi úr ábyrgðar-
tilfinn ingu einstaklingsins vegna das Man, geti reynst hættuleg ef hún verður of
sterk. Ljóst er að mörkin á milli raunverulegs og óraunverulegs lífs verða óskýr.
Heidegger gerir sér hins vegar grein fyrir því að einstaklingurinn getur ekki flúið
frá umhverfi sínu, þar sem honum er „kastað“ inn í heiminn. Einstaklingurinn
getur hins vegar öðlast meðvitund um að hann sé hluti af þessum veruleika, og
þannig haft áhrif á gjörðir daglegs lífs.57 Aðeins með því að verða sjálf, kemst
einstaklingurinn yfir í raunverulega tilvist samkvæmt ráðleggingum dómarans í
Enten/Eller. Rétt eins og dómarinn minnir á, þá er það val hans hvort hann stígur
þetta skref eða ekki. Kierkegaard myndi hins vegar aldrei telja það lausn á þessum
vanda að draga sig í hlé frá umhverfinu, heldur ber einstaklingnum að takast á við
heiminn eins og hann birtist honum. Hættan er hins vegar sú að jöfnunarferlið
kasti lífi og tækifærum einstaklingsins á glæ og sjái til þess að hann samsami sig
lægsta samnefnara.58
Það er nákvæmlega þetta sem Žižek gerir að umtalsefni í Óraplágunni og
stendur í beinum tengslum við veruleika mannsins á tuttugustu og fyrstu öld. Í
umræðu sinni um internetið og óravíddir þess tekur Žižek fram að notandinn á
spjallrásinni spyrji sig hvort „raunverulegt líf“ sé að finna í næsta glugga spjallrás-
arinnar. Þannig viðhaldi hann á ómeðvitaðan hátt þeirri blekkingu að raunveru-
leikann sé að finna í sýndarheimi.59 Mörkin á milli raunverulegs lífs og vélrænnar
eftirlíkingar lífs verða óljós, sem og mörkin á milli hlutlægs og falsks veruleika.60
Fjölnotendasvæði netheimsins (e. multiple user domains, MUD) tekur Žižek sem
dæmi um fyrirbæri sem grefur undan hugmyndinni um „sjálf eða sjálfsmynd
hinnar skynjandi hugveru“.61 Tölvuvæðingin getur þannig haft blekkjandi áhrif
á reynslu mannsins:
Að svo miklu leyti sem sýndarveruleikabúnaður felur í sér þann mögu-
leika að framkalla reynslu af hinum „raunverulega“ raunveruleika, grefur
sýndarveruleiki undan muninum á „raunverulegum“ raunveruleika og
sýnd. Þessi „raunveruleikamissir“ á sér ekki aðeins stað í tölvuframleidd-
um sýndarveruleika heldur einnig, á frumstæðara stigi, með hinu vaxandi
yfirraunsæi myndanna sem miðlarnir steypa yfir okkur – í sívaxandi mæli
skynjum við aðeins liti og útlínur en hvorki dýpt né magn […].62
Með tilkomu sýndarveruleikans verður hið innra aðskilið frá hinu ytra. Þessi
57 Heidegger 1962: 166.
58 Kierkegaard 1978: 96.
59 Žižek 2007: 314–315.
60 Sama rit: 316.
61 Sama rit: 318. Orðið „subject“ er erfitt viðureignar í heimspekilegri umfjöllun á íslensku. Í þessari
grein er kosið að þýða orðið sem sjálfsvera. Þýðandi Óraplágunnar, Haukur Már Helgason, kýs
hinsvegar að þýða orðið sem hugvera, sjá Žižek 2007: 39.
62 Sama rit: 317.