Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 199
Skotið yfir markið? 199
Þriðja siðfræðikenningakerfið sem sjá má stað í íþróttum er kenning Johns
Stuarts Mill, nytjastefnan, en hún felst í örstuttu máli í því að breytni sé rétt
að því marki sem hún stuðli að almennri hamingju eða velferð, þegar til lengri
tíma er litið, en röng að því marki sem hún dragi úr henni.17 Samkvæmt þessum
skilningi ættu þær reglur og sú breytni sem gerir sem flesta ánægða eða kemur til
móts við hagsmuni þeirra að vera sú rétta en sú sem gerir fólk óánægt eða beinist
gegn hagsmunum þess að vera röng. Röksemdir af þessu tagi nota t.d. fjölmiðlar
gjarnan þegar þeir ákvarða umfjöllun sína um einstakar íþróttagreinar.
Við þetta má bæta þeirri sérstöku siðfræði jafnréttisstefnunnar sem þróast hef-
ur og mótast alla síðustu öld og leitt til verulega bættra skilyrða kvenna til að
stunda íþróttir til jafns við karla.18 Hið sama gildir raunar um jafnrétti kynþátta,
fatlaðra og ófatlaðra, samkynhneigðra og gagnkynhneigðra, jafnrétti eftir búsetu
og þjóðerni o.s.frv. Enn er þó langt í land að hér sé komið á jafnrétti á vettvangi
íþróttanna.19
Í þessari grein er ætlunin að kanna siðræn tengsl bókmennta og þess sam-
félagslega sviðs sem þær lýsa. Slíkt sjónarhorn er að ýmsu leyti nýtt hér á landi,
einkum hvað varðar íþróttir. Það mætti því hugsanlega nota, að breyttu breyt-
anda, sem viðmiðun við aðrar greiningar á tengslum bókmennta við umhverfi sitt.
Vegna mótsagnanna sem nefndar hafa verið og umfjöllunin hér á eftir byggist á
að miklu leyti er rétt að hefja leikinn með því að ræða samhengið milli raunveru-
leika íþrótta annars vegar og íþróttabókmennta hins vegar.
Raunveruleiki íþrótta og íþróttabókmenntir
Hverju lýsa uppákomur á borð við þær sem nú tröllríða frönsku íþróttasamfélagi
þar sem einn dáðasti handknattleiksmaður heims, Nikola Karabatic, er ásamt
félögum sínum í félaginu Montpellier sakaður um siðlaus veðmál og jafnvel
mútur?20 Fræg er umfjöllun heimspekingsins Charles Taylor um upptök sjálfs-
skilnings nútíma Vesturlandabúa þar sem hann leggur áherslu á að best sé að
skilgreina tímabil og samfélög út frá ríkjandi sjálfsskilningi og menningarlegum
einkennum sem móta sjálfsmynd þeirra.21 Þannig verði nútíminn á Vesturlönd-
um best skilgreindur út frá hugmyndinni um sjálfstæði einstaklingsins, að hver
maður sé eyland. Heimurinn er settur saman af „mér“ gagnstætt „öllum hinum“.
Samkvæmt þessari sérstöku, menningarlega skilyrtu hugmynd eru einstakling-
arnir hvattir til að fylgja sjálfstæðri leið til þroska með því að rjúfa smám saman
böndin við hefðina og finna sjálfa sig með innhverfri skoðun. Til þess að svo
megi verða þurfa þeir að gaumgæfa eigið gildismat, skerpa eigin dómgreind og
draga sem mest úr ósjálfstæði sínu gagnvart öðru fólki. Þeir verða þannig ekki
aðeins að finna sinn rétta siðferðilega stað í tilverunni, heldur endurmeta sjálfa
17 Kristján Kristjánsson 1992: 72-73; Peterfreund 1992: 200–219.
18 Barres 2006: 133–136; Rolin 2004: 880–891.
19 Coakley 2003; Eygló Árnadóttir 2011; Kjartan Ólafsson 2006; Þorgerður Einarsdóttir 2011.
20 Franska handboltahneykslið 2012.
21 Taylor 1989.