Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 115
Hugur | 24. ár, 2012 | s. 115–133
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Samfélagsrýni og gamlar hættur
Um Kierkegaard og vangaveltuþjóðfélagið
Innan heimspekinnar hefur þótt eftirsóknarvert að sækja innblástur og fræðileg-
an auð úr smiðju forveranna, gömlu meistaranna sem á sínum tíma viðruðu sýn
sína á mannlífið og veruleikann. Eitthvað úreldist á meðan annað lifir. Tíðarandi
hverrar aldar fyrir sig sér einnig um að úrelda hugmyndir og heimsmyndir liðins
tíma. Tíðarandi þeirrar næstu á eftir getur hins vegar reist þær við og eilífum
sannleik um eðli hlutanna virðist erfitt að festa hendur á. Þegar við lesum verk
eftir löngu látna höfunda, sjáum við margt sem kallast á við stöðu mannsins í dag.
Það hlýtur að vera verkefni heimspekinnar að framkalla efni sem á ekki aðeins
erindi við samtímann, heldur efni sem mun einnig vara um ókomna tíð. Ástæðan
fyrir því að við lesum verk eftir látna höfunda er ekki einungis sú að þeir séu hluti
af hugmyndasögunni, heldur einnig vegna þess að þeir eiga erindi við okkur í dag.
Danski heimspekingurinn og guðfræðingurinn Søren Kierkegaard (1813–1855) er
einn þeirra, en frægðarsól hans reis sem hæst um miðbik tuttugustu aldar þegar
tilvistarstefnan hóf kröftuglega innreið sína inn í heimspeki, guðfræði og bók-
menntafræði. Kierkegaard var óheyrilega víðsýnn höfundur, en á rithöfundarferli
sínum fjallaði hann um nær öll svið mannlegrar tilveru. Í þessari grein beinast
sjónir hins vegar að örverki, eða ritgerð, sem hann skrifaði árið 1846 og hefur ekki
talist til stórvirkja hans hingað til. Í verkinu, sem nefnist Nútíminn (Nutiden),1
greinir Kierkegaard frá tíðaranda samtíma síns og kemst að niðurstöðu sem býður
upp á samanburð við stöðu einstaklingsins á gervihnattaöld.2
Fyrst verður greint frá þeim þáttum verksins sem kallast á við kenningar Hegels
1 Það getur reynst vandasamt að þýða erlenda bókatitla yfir á íslensku og því verður slíkum til-
raunum sleppt í þessari umfjöllun, að undanskildum Nútímanum.
2 Nútíminn er kafli úr verkinu En literair Anmeldelse sem út kom árið 1846, sjá Kierkegaard 1978, en
hefur einnig verið gefinn út einn og sér, sjá Kierkegaard 2010. En literair Anmeldelse er gagnrýni á
skáldsögu eftir leikkonuna Thomasine Christine Gyllembourg. Eftir að hafa gagnrýnt verkið snýr
Kierkgaard sér að eigin vangaveltum um nútímann og upplifun sinni af tíðarandanum.