Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 117
Samfélagsrýni og gamlar hættur 117
stendur Nútíminn þeim framar hvað viðkemur samanburði á tíðarandanum að
mati höfundar þessarar greinar. Í Nútímanum ræðst Kierkegaard til atlögu við
nánasta umhverfi sitt, dönsku borgarastéttina, sem hann taldi einkennast af doða
og almennu sinnu- og getuleysi gagnvart þeim verkefnum sem felast í því að vera
manneskja. Slíka gagnrýni átti Kierkegaard eftir að heimfæra upp á dönsku kirkj-
una og hið almenna danska sóknarbarn nokkrum árum síðar.4 Það sem undir-
strikar hins vegar mikilvægi Nútímans í samhengi dagsins í dag eru myndirnar
sem Kierkegaard dregur upp af einstaklingi og samfélagi sem hafa misst tengslin
hvort við annað vegna ofgnóttar upplýsinga, yfirborðsþekkingar og tilhneigingar
mannsins til að samsama sig lægsta mögulega samnefnara. Þekking mannsins á
umhverfi sínu er brotakennd í meira lagi, og hann skýlir sér á bakvið nafnleysi í
opinberri umræðu.5
Sú mynd sem Kierkegaard dregur upp af tíðarandanum á margt skylt við firring-
arhugtakið, sem rekur uppruna sinn innan meginlandsheimspekinnar til Hegels,
Feuerbachs og Marx. Í Nútímanum lýsir Kierkegaard hvernig einstaklingurinn
hefur verið sviptur allri getu til þess að taka ákvarðanir byggðar á eigin sannfær-
ingu. Þetta er niðurstaða „jöfnunar“ (d. nivellering) samfélagsins, sem veikir sjálf-
stæði einstaklingsins á öld vangaveltunnar. Einstaklingurinn er jafnaður niður af
samfélagi sem einkennist af eintómum vangaveltum og ástríðuleysi.6 Vikið verður
ítarlega að þætti jöfnunarinnar síðar í þessari grein, en rétt er að benda á hvern-
ig samskipti milli manna á vangaveltuöld Kierkegaards eru gersneydd tengslum
þeirra á milli, og hvernig sú lýsing samræmist hugmyndum firringarorðræðunnar
á 19. öld. Í samfélaginu sem Kierkegaard lýsir hefur átt sér stað einhvers konar
gengisfelling eðlilegra samskipta milli einstaklingsins og umhverfis hans. Tíðar-
andinn er sömuleiðis gegnsýrður af gengisfellingu gamalla gilda, og einkennist af
ástríðuleysi og vangaveltum.
Í inngangi að fyrirlestrum sínum um heimspeki sögunnar færir Hegel fyrir
því rök að andinn sé í eðli sínu frjáls, hann sé bei-sich-selbst eða með sjálfum sér.
Eining andans finnst í andanum sjálfum, en ekki utan hans, og því er hann sitt
eigið sjálf, frjáls. Einstaklingurinn er bæði háður einhverju eða einhverjum og er
ófrjáls þegar hann bindur sjálfan sig einhverju utanaðkomandi – einhverju „öðru“
sem hann er ekki. Frelsi finnst hins vegar í sjálfstæðri tilveru og meðvitund um
sig sjálfa(n).7 Að öðlast frelsi felur hins vegar ekki í sér að útiloka eða víkja úr vegi
4 Á síðara skeiði rithöfundarferils síns gerðist Kierkegaard hatrammur andstæðingur dönsku kirkj-
unnar, og lagði ríka áherslu á erfiðleika þess verkefnis að verða sannlega kristinn einstaklingur.
Gagnrýni hans á dönsku kirkjustofnunina og fyrirbærið kristindóm skyggði því lengi vel á fyrri
verk hans. Þetta gerði hann ekki til að gagnrýna kristnina, enda var hann nær því að vera bók-
stafstrúarmaður heldur en trúleysingi. Öllu heldur gagnrýndi hann þá prédikun kirkjunnar að
það væri auðvelt að vera kristinn. Í verki sínu frá 1850, Indøvlese i Christendom, rís þessi gagnrýni
Kierkegaards hvað hæst. Þar beinir hann sjónum sínum að þversögninni sem felst í því að Jesús sé
bæði Guð og maður, og hvernig sú staðreynd fái einstaklinginn til að „hneykslast“ á erindi kristn-
innar. Eftirfylgdin við Krist er það eina sem máli skiptir, og til að lifa því lífi sem fylgi því að hlýða
boðum Krists, þarf einstaklingurinn að þola háð og niðurlægingu alla sína tíð. Líf í eftirfylgd við
Krist sé því vont líf, sjá Kierkegaard 1991: 153; 217.
5 Kierkegaard 1978: 103.
6 Sama rit: 26.
7 Hegel 1988: 20.