Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 108
108 Erlendur Jónsson
sætta okkur við að líta á heimspekina sem bestu aðferð til að öðlast þá þekkingu
sem okkur er tiltæk.50
Náttúruhyggja hefur eins kunnugt er átt vaxandi fylgi að fagna á síðustu
áratugum. David Hume hefur að vísu oft verið eignuð náttúruhyggja, en hún
hefur einkum orðið vinsæl í engilsaxneskri heimspeki í kjölfar kenninga W.V.O.
Quine.51 Í þekkingarfræði komu fram á síðustu áratugum 20. aldar kenningar
eins og áreiðanleikahyggja52 sem eru reistar á hugmyndinni um þekkingu sem
náttúrulegt fyrirbæri.53 Hugsanlegt er að hugmyndin að baki náttúruhyggju 20.
og 21. aldar sé einhvers konar uppgjafarhyggja að hætti Lotzes, og að hann sé að
þessu leyti undanfari þessarar náttúruhyggju. Einnig hefur náttúruhyggja verið
áberandi í hugspeki, siðfræði og frumspeki.
Hins vegar er náttúruhyggja Lotzes af öðru tagi en sú sem vinsæl hefur orðið
á síðustu áratugum. Á síðari hluta 19. aldar varð vinsæl sú skoðun að framfarir í
vísindum gætu leitt til þess að við gætum skoðað þekkingarferlið með aðferðum
sálfræði og lífeðlisfræði: við gætum komist að því hvaða þekking er áreiðanleg
með því að skoða það ferli sem á sér stað þegar hlutir senda frá sér upplýsingar
sem við vinnum úr með skynfærum, taugakerfinu og myndum þannig þekkingu.
Lotze kallar þessa hugmynd „þekkingarfræði“, en nú á dögum er venja að kalla
hana sálarhyggju (e. psychologism).
John Stuart Mill er oft talinn einn helsti fylgismaður sálarhyggju á 19. öld,54 en
hann freistaði þess m.a. að gera grein fyrir sannindum talnafræði með því að líta
á þau sem mjög almennar alhæfingar út frá reynslu.55 Sem annað dæmi um sálar-
hyggju á 19. öld má nefna þýska heimspekinginn Eduard Beneke, sem segir:
[það a]ð rökfræðileg tækni hugsanaforma sé stranglega þróunarleg, eða
að hún fari fram við nákvæma rannsókn á þróunarferli hennar, og í þeirri
röð sem því vindur fram smám saman, þarf samkvæmt framansögðu
ekki frekar vitnanna við.56
Ýmsir þýskir heimspekingar vonuðust til að sálfræðileg rannsókn á þekkingarferl-
inu gæti fært þekkingarfræði Kants í „vísindalegt“ form: athugun á því hvernig
hugkvíarnar og rúm og tími myndast sálfræðilega í okkur gæti skýrt þau.
Lotze er eindreginn andstæðingur slíkrar sálarhyggju.57 Hann viðurkennir að
vissulega geti þekking á lögmálum ljóss og á gerð augans frætt okkur um sjónina
og gert okkur kleift að leiðrétta fjölda sjónvillna. En hann bendir á að jafnvel þótt
50 Sbr. Wittgenstein 2001: §242.
51 Sbr. greinina „Epistemology Naturalized“ í Quine 1969.
52 Áreiðanleikahyggja (e. reliabilism) er í stuttu máli sú kenning að þekking sé réttlætt ef hennar er
aflað með áreiðanlegum aðferðum, í áreiðanlegu ferli.
53 Sbr. Goldman 2008.
54 Umdeilt er þó hvort rétt sé að kenna Mill við sálarhyggju, sbr. Kusch 2011.
55 Mill 1973, II. bók, kafla V–VI.
56 Beneke 1832: vii.
57 Að þessu leyti er líklegt að Lotze hafi haft áhrif á Frege, sem er þekktasti gagnrýnandi sálarhyggju
19. aldar. Vitað er að Frege sótti fyrirlestra Lotzes í Göttingen, og eitt óútgefinna handrita Freges
fjallar beinlínis um rökfræði Lotzes, sjá Frege 1983: 189–190, og Dummett 1991, 4. kafla. Umræður
um áhrif Lotzes á Frege fóru einkum fram á árabilinu 1990–2000, sbr. Dummett 1991.