Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 90
90 Jakob Guðmundur Rúnarsson
Viljum við með heilanum?
Íslenskir lesendur ættu að kannast við þá áherslu sem vestræn heimspeki hefur
lagt á að ekki sé hægt að líta á mannshugann, eða þær sálargáfur sem maðurinn
býr yfir, sem lífeðlisfræðileg fyrirbæri eingöngu. Í greininn „Ætti sálfræðin að
vera til?“ sem birtist í Skírni árið 1975 færði Þorstein Gylfason m.a. rök fyrir því
að hluthyggja með tilliti til sálarlífs mannsins stæðist ekki skoðun og fyrirbæri á
borð við greind eða skynsemi yrðu ekki krufin til mergjar frá því sjónarhorni.48 Í
fyrirlestrinum „Hvernig rannsaka skal mannshugann“ frá árinu 1982 heggur Páll
Skúlason að vissu leyti í sama knérunn þar sem hann bendir á þá villu, sem mikið
bar á í hugfræði (e. cognitive science) á þeim tíma, að gera mætti grein fyrir gerð,
starfsemi og jafnvel eðli mannshugans einvörðungu frá því sjónarhorni sem Páll
kennir við „raunspeki“. Sjálfur leggur hann áherslu á að einnig verði að rannsaka
hugann útfrá sjónarhorni frumspekinnar og yfirstíga hinn „póstitívíska grein-
armun“ á hinum röklega og hinu empiríska.49 Sömu áherslu á að hugræn ferli
verði ekki smættuð niður í líkamleg ferli má sjá í grein Mikaels M. Karlssonar
„Hugsum við með heilanum?“ sem leit dagsins ljós á tíunda áratug síðustu aldar.50
Þó að þessar þrjár greinar séu um margt ólíkar og grundvallarviðhorf höfunda
þeirra í mörgu tilliti andstæð, má samt sem áður segja að þær undirstriki þá sam-
eiginlegu skoðun að starfsemi hugans, og þá sérstaklega sá þáttur í fari mannsins
sem mætti kenna við skynsemi, sé ekki einvörðungu fólgin í lífeðlisfræðilegri gerð
hans og að eitt af mikilvægustu hlutverkum heimspekinnar sé rannsókn á mann-
legri hugsun eftir leiðum sem séu ekki bundnar við líkamlegar, lífeðlisfræðilegar
eða sálfræðilegar forsendur.
Eins og greinar þeirra Páls, Mikaels og Þorsteins bera vott um hafa heim-
spekingar samtímans verið mjög meðvitaðir um þá staðreynd að fyrirbæri á borð
við „skynsemi“ og „huga“ eru óaðskiljanlegur þáttur heimspekinnar sem lúta
„óefnis legum skilyrðum“ svo orðalag Kants sé notað. „Skynsemi“ og „hugur“ eru
svo að segja kjarnahugtök heimspekinnar frá þeim sjónarhóli og allar réttmætar
rannsóknir á þeim verða að hafa til að bera tiltekna heimspekilega vídd (sem má
reyndar skilgreina á mjög ólíka vegu eins og sést t.d. á áðurnefndum greinum Páls
og Þorsteins). Þung áhersla er lögð á að rannsóknir á mannshuganum og skyn-
semi mannsins verði ekki smættaðar niður í sálfræðilegar eða lífeðlisfræðilegar
athuganir. En verður það sama sagt um viljann?
Því verður ekki haldið fram að heimspekingar hafi sagt skilið við viljann sem
viðfangsefni eða að viljinn sé ekki umfjöllunarefni vestrænnar heimspeki í sam-
tímanum. En hjá því verður vart litið að „skynsemi“ er miðlægt hugtak í nú-
tímaheimspeki. Mikil áhersla er lögð á að heimspeki snúist að miklu leyti um
„rétta beitingu“ skynseminnar og feli jafnframt í sér rannsókn á skynseminni,
samanber þá áherslu sem nú er lögð á mikilvægi gagnrýninnar hugsunnar. Vilj-
inn, sem vitsmunalegur eða sálfræðilegur eiginleiki, virðist hins vegar ekki njóta
48 Þorsteinn Gylfason 2006.
49 Páll Skúlason 1987.
50 Mikael M. Karlsson 1995.