Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 119
Samfélagsrýni og gamlar hættur 119
raun ekki maður, því hann er ekki frjáls og skapandi vera sem hefur tilgang með
tilvist sinni.13
Þó að Kierkegaard noti hvergi orðið firring í Nútímanum á firringarumræð-
an á nítjándu öld margt skylt við þann tíðaranda sem Kierkegaard lýsir. Bæði
samfélagsleg og einstaklingsbundin sérkenni hafa tapað gildi sínu, þótt þeim sé
ennþá haldið á lofti eða séu ennþá fyrir sjónum fólks. Allt er til, á meðan ekkert
er til. Kierkegaard kallar þetta díalektíska blekkingu.14 Blekkingin felur í sér að
birtingarmyndir gildanna standa okkur enn ljóslifandi fyrir sjónum, en hafa tapað
merkingu sinni. Hann tekur dæmi af dæmigerðum föður í Kaupmannahöfn á 19.
öld, sem bölvar ekki lengur syni sínum í reiðikasti, heldur hugsar honum aðeins
þegjandi þörfina. Að sama skapi ögrar sonurinn ekki föðurnum. Sambandið á
milli þeirra er firrt, því engin andleg tenging er á milli þeirra þó svo á yfirborðinu
sé samband þeirra til fyrirmyndar og á kurteislegum nótum. Ótti ungmenna við
yfirvald er ekki lengur til. Nemandinn hræðist ekki skólastjórann og skólastjór-
anum er sama um nemandann. Þögult samþykki ríkir á milli beggja aðila um að
aðhafast ekkert. Sambönd sem þessi einkennast af spennu að mati Kierkegaards,
spennu sem keyrir einstaklinginn að endingu út og sviptir hann því innra lífi sem
áreiðanleiki og ábyrgð hafa í för með sér. Það að geta viðurkennt vald þess sem
valdið hefur og vilja lærisveinsins til að læra og gegna er það sem gerir hlýðni
barnsins og vald föðurins að gleðiefni að mati Kierkegaards.15 Hvað svo sem segja
má um raunverulegt mikilvægi þess að dönsk ungmenni hafi verið óhlýðin yfir-
boðurum sínum og yfirboðarar sinnulausir gagnvart ungmennum um miðbik 19.
aldar, er ljóst að Kierkegaard bendir á ákveðið rof milli einstaklinga sem einangrar
hvorn aðila um sig og hvetur til sinnuleysis af hálfu beggja. Rétt er að ræða um
firringu í þessu samhengi.
Að verða sjálf
Í samfélaginu sem Kierkegaard dregur upp mynd af eiga einstaklingar erfitt með
að mynda tengsl vegna þess að hugmyndafræðileg gildisfelling hefur átt sér stað.
Firring er viðeigandi hugtak í þessu samhengi, en Hegel og Marx bentu báðir á
að einstaklingurinn verði ekki heill eða sjálfstæður innan samfélags sem sér um
að ákvarða gildin og ráðskast þannig með einstaklinginn. Það firringarástand sem
Kierkegaard lýsir og telur einkenna samtíma sinn, og Hegel og Marx sammælast
um að feli í sér aukna fjarlægð og aftengingu einstaklingsins við umhverfi sitt og
samborgara, er grundvallaratriði í kenningu hans um að verða sjálf – sem leikur
lykilhlutverk í allri hans heimspeki. Í Indøvelse i Christendom lýsir hulduhöfund-
urinn Anti-Climacus ungum manni sem verður ástfanginn af hugmyndinni um
að verða kristinn. Ævinni eyðir hann í eltingarleik við þá hugsjón, allt verður
merkingarlaust nema að fylgja Kristi og hlýða skipunum hans og boðum.16 Verkið
13 Marx 1988: 147–150.
14 Kierkegaard 1978: 77.
15 Sama rit: 79.
16 Kierkegaard 1991: 183.