Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 144
144 Elsa Haraldsdóttir
hulda fara á mis við tilgang sinn. Sá ég því ráðlegast að bæla niður til-
hneiginguna til þess […]. Ég hafði fundið sönnunina í sjálfum mér, og
þurfti eigi lengra að leita, enda þótt ég skildi sjálfan mig ærið ógjörla.40
En það er eins og það dugi aðeins um skamman tíma. Brynjúlfur viðurkennir að
heimspekin hafi aldrei verið langt undan og segir: „[…] eiginlega hætti ég aldrei
alveg að hugsa um hina dularfullu hlið lífsins. Hún dró hugann að sér hvað eftir
annað. Og þar kom, að ég gat ekki varizt því, að gefa henni meiri gaum, en ég
hafði gert um hríð.“41 Einhver drifkraftur og löngun til þess að fullkomna hug-
myndakerfi sitt hefur gert það að verkum að, þrátt fyrir tilraunir til þess, þá hafi
ekki verið hægt að losa sig undan heimspekilegum þankagangi. En eins og Páll
Skúlason bendir á þá vill heimspekingurinn sem hugsar í anda Platons sjá „hina
sönnu mynd veruleikans; hann vill mynda heiminn og gera sér eins skýra og
greinilega mynd af honum og frekast er kostur“.42
Hvar verður heimspekileg hugsun til?
Í hvaða aðstæðum verður heimspekileg hugsun til? Hverjar eru ytri aðstæður
heimspekilegrar hugsunar? Hvaða áhrif hefur húsakostur, veðurfar og lífsviður-
væri? Getur verið að líkamleg vinna standi í vegi fyrir frjórri hugsun? Kjörað-
stæður en þroskaleysi eða heimspekileg andagift en lélegar aðstæður? Við hvaða
aðstæður er best að hugsa? Hollendingurinn Henrik Willem van Loon veltir
upp svipuðum spurningum í bók sinni Frelsisbarátta mannsandans þar sem hann
fjallar um sögu hugsunarfrelsisins. Þar spyr hann að því hvernig „lítill fjallaskagi í
afkima Miðjarðarhafsins gat á tæpum tvö hundruð árum lagt öllum heiminum til
uppistöðuna að nútímareynslu okkar í stjórnmálum, bókmenntum, leiklist, mynd-
list, efnafræði, eðlisfræði og guð má vita hve mörgu öðru?“43 Þar á van Loon við
Grikkland en hann heldur því fram að sú þróun sem átti sér stað á upphafsárum
heimspekinnar hafi eingöngu verið möguleg vegna þess að „þeir þættir, sem til þess
þarf, svo sem kyngæði, loftslag, velmegun og stjórnmálaástand, eru samankomnir
á eins æskilegan hátt og unnt er í þessum ófullkomna heimi“.44 Samkvæmt van
Loon hafa ytri ástæður allt um það að segja hver afrakstur hugarstarfsins verður.
Sem dæmi bendir hann á að Rembrandt hefði ekki málað listaverk og Bach hefði
ekki samið fúgur ef þeir hefðu fæðst í snjóhúsi í Upernavik og „neyðzt til að verja
mestum hluta ævi sinnar til að sitja við vök á ísbreiðu“.45 Eitthvað hefur van Loon
til síns máls því það er augljóslega erfitt að sitja og mála listaverk ef maður elst
upp í snjóhúsi. Til að hugmyndir og kenningar heimspekingsins fái að lifa þarf
hann að koma þeim í orð og skrá þær niður. En er heimspekiritið hinn eiginlegi
40 Sama rit: 22–23.
41 Sama rit: 23.
42 Páll Skúlason 1981: 20.
43 Van Loon 1943: 21.
44 Sama rit: 22.
45 Sama rit: 22.