Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 96
96 Erlendur Jónsson
Helstu heimspekirit Lotzes
Lotze segir svo sjálfur frá, að það hafi verið skáldskapur og list sem hafi fyrst vakið
áhuga hans á heimspeki og gaf hann út ljóðabók 1840. Fyrstu fræðilegu rit hans
voru á sviði líffræði og læknisfræði.8 Fyrsta meiriháttar heimspekirit Lotzes var
„minni“ Frumspekin,9 en hann var aðeins 24 ára gamall er hún kom út. Í henni
koma fram mörg meginatriði síðari heimspeki Lotzes. Ritinu skiptir hann í
þrjá meginhluta: kenninguna um veruna (þ. Sein), kenninguna um fyrirbærið (þ.
Erscheinung), en þriðji hluti ber titilinn „Um sannleika þekkingarinnar“. Lotze
leggur áherslu á hið „altæka“ (þ. das Absolute), hugtak sem tekið er úr heimspeki
Hegels, og telur það lokatakmark heimspekinnar. Fyrsta verkefni heimspekinnar
er hins vegar að komast að forsendum þekkingarinnar, í anda Kants.10
Fyrirbæri framvindu heimsins, er taka stöðugum stakkaskiptum og
breytingum, líða framhjá hinum óskrifaða huga til að byrja með og
mynda efni hugleiðinga sem takast á hendur, með því að bera saman hið
einstaka, að greina hið mikilvæga frá hinu ómikilvæga, hið stöðuga frá
hinu forgengilega […].11
Lotze notar hugtakið „skoðun“ (þ. Meinung), sem ekki er enn orðin þekking, sem
prófstein á sannleiksgildi rannsókna hugans. Hugurinn á þegar að hafa öðlast
sannleikann í mynd þessarar „skoðunar“ áður en hann upphefur sannleikann í
þekkingu. En í þessum fyrsta hluta vísar umræðan aldrei til veruleikans sjálfs. Í
öðrum hluta koma hins vegar fram tengslin við veruleikann:
Á meðan við gátum orðað spurninguna sem fyrsti hluti Frumspekinnar
átti að svara á sálfræðilegan hátt svo: ef hugsa á eitthvað, hvernig hljótum
við að hugsa það? er spurning annars hluta frekar þessi: hvernig hljótum
við að hugsa um það til þess að unnt sé að hugsa um það á þann hátt sem
inntak fyrsta hluta kvað á um? Eða: hvaða frekari kröfur verður að gera
um eðli þess sem er til að gera því kleift að öðlast hæfileikann til að vera
undirskipað hreint rökfræðilegum skilyrðum í formi hugsunarinnar?12
Niðurstaða þessara hugleiðinga er útleiðsla á formum reynslunnar (þ. Anschau-
ungsformen) og jafnvel á almennu eðli veruleikans. Í þriðja hluta er viðfangsefnið
sannleikur þekkingarinnar og er þá leitast við að ákvarða tengsl hugar og heims.
Rúm, tími og hugkvíarnar hafa aðeins huglægt gildi og ná ekki til hlutanna í
sjálfum sér. Hugkvíarnar eru form vensla og eru sem slíkar ekki til, heldur eru þær
búnar til (þ. gesetzt) af huganum.
8 Sjá Lotze 1838, Lotze 1840a, Lotze 1842 og Lotze 1852.
9 Lotze 1841.
10 Eins og bent var á að framan, er Lotze oft talinn einn helsti áhrifavaldur nýkantismans.
11 Sjá Lotze 1841: 8.
12 Sama rit: 27.