Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 60
60 Róbert H. Haraldsson
menntun sé ástunduð (a.m.k. upp að ákveðnu marki) án andlegs frelsis. Rökræða
og fræðileg umræða sem ekki hreyfði við kreddunum var samþykkt og sama gilti
um orðræðu sem ekki raskaði tilfinningalífi sjúklinganna. Hins vegar var brugðist
við af heift gagnvart orðræðu sem ekki virti þessi takmörk. Þeirri spurningu var
hins vegar aldrei velt upp innan hreyfingarinnar hvaða afleiðingar það gæti haft
fyrir andlega velferð hópsins að samþykkja slíkar takmarkanir á hugsunarfrelsi og
málfrelsi. Samkvæmt gagnrýnendunum – og líka þeim konum sem síðar drógu
ásakanir sínar til baka93 – voru afleiðingarnar hræðilegar fyrir marga skjólstæð-
inga, fjölskyldur þeirra og vini, og stundum heilu bæjarsamfélögin. Andrúmsloft
óttans var skapað. Menn þorðu ekki að mótmæla eða efast um þessi fræði af ótta
við að vera álitnir samverkamenn kynferðisglæpamanna. Þá er ótalinn allur sá
fjöldi karla og kvenna sem þurftu dag og nótt að óttast ásakanir sem áttu rætur
að rekja til vinnu slíkra ráðgjafa. Mælikvarðarnir á hvað taldist réttmæt ásökun –
hvað er til marks um að einhver hafi verið misnotaður? Hvað er til marks um að
einhver hafi misnotað aðra? – voru svo víðir og losaralegir að enginn maður gat í
reyndinni verið óhultur. Listar yfir „sjúkdómseinkenni“ kynferðislegrar misnotk-
unar voru svo opnir, og einkennin svo almenns eðlis, að bókstaflega allir gátu
fundið þar samsvörun við eigið líf.94 Nefna má einkenni á borð við myrkfælni,
fullkomnunaráráttu, löngun til að breyta nafni sínu, ótta við að missa tökin,
lágt sjálfsmat o.s.frv. Þessi almennu einkenni voru oft álitin óbrigðul teikn um
kynferðislega misnotkun í æsku sem engar minningar voru þó til um. Í ritum
hreyfingarinnar er hamrað á því að slíkur skortur á minningum sé engin rök gegn
því að slík misnotkun hafi átt sér stað. Einhver ákafasti talsmaður hreyfingarinnar,
John Bradshaw, taldi minnisleysið eitt af einkennum (e. symptom) kynferðislegrar
misnotkunar (sem hafði verið bæld). Hann sá sig því knúinn til að setja fram
eftir farandi varnaðarorð: „Ef þú manst ekki eftir að hafa verið misnotuð merkir
það ekki nauðsynlega að þú hafir verið misnotuð.“95 Lesandinn þarf sennilega að lesa
þessa fullyrðingu tvisvar til að sjá að Bradshaw vill halda þeim möguleika opnum
að þú munir ekki eftir kynferðislegri misnotkun OG hafir ekki verið misnotuð!
Svipuð mynd blasir við þegar við skoðum síðara dæmið, femínisma í kvenna-
fræðum. Patai og Koertge velta því fyrir sér hvers vegna viðmælendur þeirra úr
kvennafræðum kröfðust flestar nafnleyndar. Þær botna formála bókarinnar svo:
Okkur þykir leitt að benda á að þessi ósk um nafnleynd endurspeglar
sum af þeim vandamálum sem þessari bók er ætlað að greina: tilhneiging
femínisma til að kæfa opna umræðu og skapa andrúmsloft þar sem litið
er á andstöðu sem svik.96
93 Maran 2010: 201 o.áfr.
94 Ofshe og Watters 1994: 65–70; Loftus og Ketcham 1994: 22.
95 Ofshe og Watters 1994: 81.
96 Patai og Koertge 2003: xxv. Þögn karla vekur eftirtekt. Flestir beittustu gagnrýnendur femínisma
sem ég hef fundið verk eftir eru kvenkyns. Þetta kann að vera vegna þess að bandarískar kvenna-
fræðadeildir eru einkum skipaðar konum og konur geta því byggt gagnrýni sína á eigin reynslu.
Sá grunur læðist einnig að manni að karlmenn veigri sér við að gagnrýna femínisma.