Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 214
214 Guðmundur Sæmundsson og Kristján Kristjánsson
og margháttuð tengsl milli einstaklinga af þeim sökum, svo sem fjölskyldutengsl,
staðartengsl, tengsl í gegnum skóla og vinahópa, áhugamál o.fl.98 Á hinn bóginn
geta þessar aðstæður einnig stuðlað að enn meiri sjálflægni og einstaklingshyggju,
spillingu og skekktum gildum.99 Nýlegir atburðir í íslensku efnahags- og stjórn-
málalífi benda til þess að hér hafi þróast svipuð viðhorf og víða annars staðar,
byggð á græðgi og sjálfshyggju, og leitt til jafnvel enn meiri vandræða en í öðrum
löndum.100 Einstaklingsvæðingin sem Giddens lýsir svo ágætlega hefur greinilega
ekki látið Ísland ósnortið.
Eitt er að einstaklingshyggja og sjálflægni hafi mótað íslenskt samfélag al-
mennt. Ekki er þar með sagt að íþróttalífið hafi meðtekið þessi viðhorf eða að
þau ríki innan íslensks íþróttaveruleika. Til þess gæti bent að erlendis þykir ekki
svo fréttnæmt þótt upp komist til dæmis um fjárhagslega spillingu í íþróttahreyf-
ingunni.101 Hérlendis þykir slíkt hins vegar hneykslunarefni og er fordæmt þótt
stundum sé reynt að gera sem minnst úr slíkum málum til að vernda orðspor
hreyfingarinnar, sbr. umfjöllunina um notkun VISA-korts KSÍ á vændisbörum
erlendis.102 Mikill meirihluti þeirra sem starfa innan íslenskra íþrótta er mjög
sennilega langt frá því að vera eiginhagsmunaseggir. Þetta er ugglaust þvert á
móti upp til hópa heiðarlegt fólk, réttsýnt, óeigingjarnt og fórnfúst í þágu góðs
málstaðar. Þannig er meira en líklegt að iðkendur, foreldrar, félagsmálaleiðtogar
og þjálfarar íþróttahreyfingarinnar séu enn hallir undir verulegan hluta hinna
gömlu hugsjóna um hetjuskap og heiðarleika.
Á meðan engar rannsóknir hafa verið gerðar á siðferði íslenskra íþrótta er því
ekkert hægt að staðhæfa um það. Hins vegar hlýtur að vera nærtækt að gera ráð
fyrir að íslenskar íþróttir séu ekki lausar við áhrif þeirra lasta sem ganga ljósum
logum um alþjóðlega íþróttahreyfingu og íþróttamenn falla fyrir hver um annan
þveran. Ísland er ekki eyland. Það eru íslenskar íþróttir ekki heldur. Fjölmargir
íslenskir íþróttamenn stunda íþróttir sínar um allan heim og á vegum erlendra fé-
laga og liða og hljóta því að lúta þar sömu lögmálum og aðrir. Fjölmargir erlendir
íþróttamenn stunda einnig íþróttir hér á landi á hverju ári, sem atvinnumenn,
hálfatvinnumenn eða áhugamenn. Er ekki líklegt að þessi nánu tengsl beri með
sér hingað heim einhver þeirra viðhorfa sem þar virðast ríkja?
Það styður þessa niðurstöðu hve fáir höfundar finna hjá sér hvöt til að fjalla
yfirleitt um íþróttir í verkum sínum. Ástæðan fyrir því er ef til vill ekki svo flókin.
Íþróttir teljast ekki til íslenskrar „hámenningar“ og vekja því hvorki sjálfkrafa
virðingu né listrænan áhuga. Einnig kann ástæðan fyrir því hvers vegna ýmsir
höfundar ákveða að minnast ekki á íþróttir að vera vonbrigði vegna þeirra sið-
ferðis bresta sem þeir telja að finna megi í veruleika íslenskra nútímaíþrótta eða
tilfinningar þeirrar fyrir því að íþróttaveruleikinn skeri sig á engan tilþrifamikinn
hátt (sem „vin í eyðimörk“) frá íslenskum hvunndagsveruleika Það gæti einnig
skýrt að hluta hvers vegna þeir fáu höfundar sem nota dæmi úr íþróttum eru
98 Vilhjálmur Árnason, Salvör Nordal og Kristín Ástgeirsdóttir 2010.
99 Ímynd Íslands. Styrkur, staða og stefna 2008.
100 Vilhjálmur Árnason, Salvör Nordal og Kristín Ástgeirsdóttir 2010.
101 Wetzel og Yaeger 2000.
102 Sigurður Már Jónsson 2009.