Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 170
170 Simone de Beauvoir
sem veitir innblástur, menntagyðja. Listmálarar og myndhöggvarar vilja fá hana
sem fyrirsætu, hún nærir drauma skáldanna, í henni mun menntamaðurinn kanna
fjársjóði hins kvenlega „innsæis“. Hún nýtir betur gáfur sínar en húsmóðirin, því
hún er ekki eins þjökuð af hræsni. Þær sem eru sérstaklega hæfileikaríkar munu
ekki láta sér nægja þetta hlutverk andagiftargyðju; þær munu ósjálfrátt gefa í skyn
það gildi sem velþóknun annarra gefur þeim. Þær munu vilja virkja óvirka hæfi-
leika sína til athafna. Sem fullvalda einstaklingar brjótast þær fram í heiminn og
skrifa ljóð og prósa, mála, semja tónlist. Á þennan hátt varð Imperia fræg meðal
ítalskra hirðfylgikvenna. Stundum geta þær beitt fyrir sig körlum sem verkfæri til
að nota við karlmannsverk: „uppáhaldshjákonurnar“ tóku þátt í stjórnun heimsins
gegnum valdamikla elskhuga sína.14
Þessa frelsun má heimfæra upp á kynferðislega sviðið. Fyrir kemur að í gegn-
um þá peninga eða greiðasemi sem þær þvinga fram hjá karlinum, fái konan
sárabætur fyrir kvenlæga minnimáttarkennd sína. Peningarnir hafa hreinsandi
áhrif, þeir bæla niður baráttu kynjanna. Þó að margar konur sem ekki eru í faginu
vilji fá tékka og gjafir frá elskhuga sínum, þá er það ekki eingöngu af græðgi: að
láta karlinn borga – og að borga honum líka, eins og við komum að síðar – er að
breyta honum í tæki. Með þessu kemur konan í veg fyrir að verða sjálf að tæki;
kannski heldur hann að hann „eigi“ hana, en þessi kynferðislega eign er blekking.
Það er hún sem á hann á mun áþreifanlegra sviði fjármálanna. Stolti hennar er
fullnægt. Hún getur varpað sér í faðm elskhugans; hún er ekki að gefa eftir vegna
utanaðkomandi vilja. Ástaratlotunum verður ekki ,,þvingað“ upp á hana, heldur
mun hún líta á þau sem aukaávinning; hún verður ekki „tekin“ fyrst hún hefur
fengið greitt.
Þrátt fyrir það hefur lagskonan það orð á sér að vera kynköld. Það er henni
nauðsynlegt að hafa stjórn á hjarta sínu og kviði. Nái tilfinningasemi eða nautn
tökum á henni, þá er hætta á yfirráðum karlsins sem síðan misnotar hana eða
einokar eða veldur henni þjáningu. Meðal þeirra sambanda sem hún fellst á, sér-
staklega í upphafi starfsferilsins, eru mörg sem fela í sér niðurlægingu og uppreisn
hennar gegn karlmannlegum hroka birtist í kynkulda hennar. Lagskonur, sem og
húsmæður, treysta hver annarri fyrir „ráðum“ sem gerir þeim kleift að beita „upp-
gerð“ við vinnu sína. Þessi skömm eða óbeit á karlmanninum sýnir að í leiknum
um hvor er misnotaður og hvor er drottnarinn, eru þær alls ekki vissar um að
hafa unnið. Þrátt fyrir allt er það enn mestmegnis svo að ósjálfstæði er hlutskipti
þeirra.
Enginn karlmaður er endanlega húsbóndi þeirra. En þær hafa knýjandi þörf
fyrir karlmanninn. Lagskonan missir öll lífsskilyrði sín ef hann hættir að þrá
hana. Sú sem er að byrja veit að framtíð hennar er í höndum þeirra. Meira að
segja stjarnan sér dýrð sína dofna ef karlmanns nýtur ekki lengur við: Yfirgefin
af Orson Welles leit Rita Hayworth út eins og heilsuveill munaðarleysingi þegar
hún flakkaði um Evrópu áður en hún hitti Ali Khan. Jafnvel sú fallegasta veit
14 Eins og vissar konur nota hjónabandið í eigin þágu, nota aðrar konur elskhuga sína sem tæki til
að ná tilteknum markmiðum, pólitískum, fjárhagslegum o.s.frv. Þær fara fram úr aðstæðum lags-
konunnar eins og hinar fara fram úr aðstæðum húsmóðurinnar.