Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 53
Andleg velferð mannkyns 53
að höfuðviðfangsefni annars kaflans og raunar alls Frelsisins er andleg velferð
mannkyns.55
En hvað er andleg velferð mannkyns? Er hún bara samanlögð andleg velferð
einstaklinganna? Það er hin hefðbundna túlkun á Frelsinu. Mill notar hins vegar
iðulega orðalag sem býður heim annarri túlkun. Í ofangreindri tilvitnun ræðir
hann t.d. um andlega fjörlega þjóð (e. active people) og tiltekið andrúmsloft (e.
atmosphere) sem ríkir þar sem mannkyn býr ekki við andlega velferð. Framhaldið
er svohljóðandi: „Þegar þjóð hefur tekizt að lifa andlegu lífi … [When any people
has made a temporary approach to such a character …]“ (80–81; CW 18: 243). Hér er
vísað til skapgerðar þjóðarinnar, þótt sú hugsun skili sér ekki í íslensku þýðing-
unni. Stuttu síðar er hert á þessum skilningi: „Þegar menn hafa forðazt ágreining
um svo mikilvæg efni, að þau tendra eldmóð í brjóstum þeirra, hefur djúpstæðra
andlegra hræringa aldrei gætt í lífi þjóða [the mind of the people]“ (81; CW 18: 243).
Með slíku orðalagi gefur Mill þeirri tilgátu byr undir báða vængi að andleg velferð
mannkyns vísi ekki bara til samanlagðrar andlegrar velferðar einstaklinganna sem
mynda hópinn, þjóðina eða mannkynið hverju sinni. Þjóðinni sjálfri er eignuð
skapgerð, hugur og hún er sögð búa við tiltekið andrúmsloft. Að þessu leyti virðist
þjóðin (e. people) lík lifandi einstaklingi sem getur t.d. þjáðst af hugarvillu.
Við höfum vanist því að tala um andleg mein sem hrjá tiltekna hópa eða þjóðir,
mein sem ekki verður að fullu lýst sem uppsöfnuðu meinasafni einstaklinganna
er mynda hópinn. Að þessu leyti er mikill munur á tannskemmdum þjóðar ann-
ars vegar, sem merkir ekkert annað en samanlagðar tannskemmdir allra íbúanna,
og hins vegar hjarðhugsun þjóðar t.d. í fjármálum. Í dæmum af síðari taginu
eru flókin tengsl og víxlverkanir á milli einstaklinganna í hópnum sem ekki eru
til staðar í dæmum af fyrra taginu. Við tölum í því samhengi um múgsefjun (e.
mass hysteria) eða hugarvillu (e. illusion) sem ná tökum á bæjarfélögum, þjóðum,
fræðasamfélögum eða jafnvel mannkyninu öllu. Upp í hugann koma dæmi á borð
við ofsóknir McCarthys gegn meintum kommúnistum í Bandaríkjunum upp úr
miðri tuttugustu öld. Í stað þess að skoða vel þekkta atburði af þessu tagi kýs
ég að vekja athygli á tveimur nýlegri en minna þekktum dæmum sem geta e.t.v.
varpað ljósi á andlega velferð mannkyns. Í hvoru tilviki um sig sæki ég í smiðju
til fræðimanna sem hafa gagnrýnt viðkomandi andrúmsloft. Markmið mitt er
ekki að skera úr um það hvort gagnrýnendurnir hafi rétt fyrir sér heldur að skoða
hvernig þeir lýsa því andrúmslofti sem um ræðir. Ég myndi á hinn bóginn ekki
gera þessi dæmi að umtalsefni teldi ég gagnrýnina illa rökstudda eða ósanngjarna.
Bæði dæmin koma frá Bandaríkjum Norður-Ameríku.
Fyrra dæmið er um það hvernig umtalsverður hluti bandarísku þjóðarinnar varð
á árunum 1984–1996 nánast heltekinn af því sem nefnt hefur verið hugmyndafræði
bældra eða endurheimtra minninga (e. repressed eða recovered memories). Eins og
nafnið gefur til kynna fjallar sú hugmyndafræði um útbreiðslu og virkni bældra
minninga, einkum hjá meintum fórnarlömbum kynferðislegrar misnotkunar.
Hugmyndafræði bældra minninga hvíldi á þeirri tilgátu að stór hluti allra þeirra
55 Hitt er síðan annað mál að Mill telur að fátt muni skaða andlega velferð mannkyns eins mikið og
það að vinna gegn framkomu mikilla hugsuða.