Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 26
26 Steinunn Hreinsdóttir
Fyrstu rök Schopenhauers eru rök byggð á skorti á fullnægju – en skorturinn
er veigamikil rök fyrir bölhyggju hans. Skorturinn gerir vart við sig í löngunum
og viljaathöfnum mannsins og er undirrót þjáningar. Þá finnur maðurinn tilfinn-
ingalega fyrir sársaukanum; hamingjan er aftur á móti ástand þar sem við finnum
ekki fyrir sársauka. „Við finnum sársauka, en ekki sársaukaleysi; umhyggju, en
ekki umhyggjuleysi, ótta, en ekki skjól og öryggi. Við finnum löngunina er við
finnum fyrir hungri og þorsta; en um leið og löngunin hefur verið uppfyllt, sem
gerist á því augnabliki þegar við innbyrðum munnfylli af fæðu og kyngjum, þá
finnum við ekki lengur neitt […].“12 Við finnum fyrir skortinum en hins vegar
ekki tilfinningu fyrir hamingju. Vellíðan eða ánægja er aðeins andstæða skortsins
og hefur því neikvætt gildi. Allar langanir okkar eru sársaukafullar vegna skortsins
og í hvert skipti sem við upplifum skortinn er þjáningin óumflýjanleg. Við náum
aldrei að fanga hamingjuna (endanlega) þar sem nýjar langanir leysa ánægjuna
samstundis af hólmi. Ánægjan getur því aldrei verið annað en lausn undan þján-
ingu.13 Schopenhauer líkir viljaþörfinni við óslökkvandi þorsta, sem aldrei er unnt
að svala í eitt skipti fyrir öll. Það þýðir að viljinn nær ekki að mettast og verður
aldrei ánægður; vansældin er því óumflýjanleg. Hamingjan er aðeins tálsýn sem
upphaf á löngunum okkar og streði; hún daðrar sífellt við viljann og er í eðli sínu
af neikvæðum toga, þar sem hún varir aldrei í formi fullnægðrar ánægju.
Önnur rök Schopenhauers fyrir bölhyggju byggja á sálfræðilegum athugunum
hans og eru rökin fyrir leiða sem maðurinn hneigist til. „[…] uppfylling langana
kallar fljótt fram ofseðjun. Markmiðið var einungis blekking: uppfyllingin fjar-
lægir hvötina; löngunin hlýtur að vakna í nýju formi. Ef það gerist ekki hlýst af
því einmanaleiki, tómleiki, leiði […].“14 Þegar maðurinn fær of auðveldlega og
fyrirhafnalítið allar óskir sínar uppfylltar uppgötvar hann tálsýn hamingjunnar,
en við það dregur verulega úr lönguninni; viljinn verður óvirkur; maðurinn fyllist
tómleika og leiða – og tilveran verður óbærileg byrði. Leiðinn, sem skapast vegna
skorts á að vilja, stangast í raun á við frumspekilega viljaþörfina, sem í sjálfu sér
er ekki hægt að metta.
Til að skilja betur rök Schopenhauers varðandi leiðann er brýnt að greina á milli
viljans í sjálfum sér og einstakra markmiðstengdra langana í skynheiminum. Við
búum til persónuleg markmið okkar; viljinn í sjálfum sér er hins vegar stefnulaus
og án ástæðu, sem verufræðilegt form einstakra viljaathafna í reynsluheiminum.
Viljinn gegnir því tvíþættu hlutverki: Okkur langar í eitthvað tiltekið í hinum
skynjanlega heimi og á sama tíma hlýðum við ósjálfrátt viljanum. Löngunin full-
nægir bæði persónulegri þörf og verufræðilegri þörf, sem er óendanleg í sjálfu
sér. Aðeins dauðinn getur stöðvað viljann vegna þess að það er ekkert endanlegt
viðfang vilja okkar.
Tvenn meginrök Schopenhauers fyrir bölhyggjunni, rökin fyrir skorti á full-
nægju og rökin fyrir leiða, hvíla á frumspekilegum óseðjandi vilja þar sem skort-
urinn gerir stöðugt vart við sig. Á meðan viljinn er að verki, er viljaupplifun okkar
12 Schopenhauer 1958: 575.
13 Schopenhauer 2008: 374.
14 Sama rit: 368.