Prestafélagsritið - 01.01.1926, Blaðsíða 100
94
Sigurður P. Sívertsen:
Prestafélagsritiö.
hefir þetta þrent reynst öflug uppbyggingarmeðöl frá elztu
tímum og um allar aldir kristninnar. I ritningunni eru ótæm-
andi fjársjóðir, sem sannarlega eru ekki minna virði fyrir oss
nútímamenn en fyrir eldri kynslóðir. Bænin hlýtur jafnt við
kirkjuguðrækni og við guðsdýrkun í einrúmi að vera lykillinn
að drottins náð. Og áhrif söngsins eru margprófuð, svo um
þau þarf ekki að fjölyrða. Auk þessa koma hin sérstöku áhrif
kvöldmáltíðarnautnarinnar, sem ávalt er kostur á að fari fram
við guðsþjónustur vorar, svo að sýnilegt er, hve einhliða það
er, að láta einn lið guðsþjónustunnar yfirskyggja og nálega
útiloka hina.
En sé nánar farið að grafast fyrir orsök þess, að dómur
margra er svo einhliða um hina ýmsu liði guðsþjónustu vorr-
ar, þá sjáum vér að þetta stendur í nánu sambandi við þriðja
gallann á kirkjuguðrækni vorri, sem er sá, hve þátttaka
margra í guðsþjónustum safnaðanna er takmörkuð.
Fyrir mörgum virðist vaka, að eðlilegt sé að fara í kirkju
til þess eins að hlusta á það, sem þar fer fram. Þeim hefir
ekki skilist, að blessun hverrar guðsþjónustu væri að miklu
leyti komin undir þátttöku þeirra, sem guðsþjónustuna sækja.
En sú þátttaka getur verið með mörgu móti. Ég held að ekki
sé fjarri sanni, að tala um þrjú stig þátttökunnar í opinberri
guðsþjónustu safnaðanna.
Lægsta stigið er, að vera aðeins áheyrandi. Koma í kirkj-
una aðeins til þess að hlusta á prestinn og hlusta á söng-
inn og annað, sem þar er fram borið. — Kirkjan verður þá
líkust leikhúsi, þar sem fáeinir eru leikendur, sem hafa alla
ábyrgð á hlutverkum leikhússins, en allir hinir eru aðeins
áheyrendur og áhorfendur, sem engu öðru hafa að sinna en
að taka kurteislega við því, sem að þeim er rétt. — Ágætu
dæmi upp á þennan hugsunarhátt kyntist ég á fyrsta prests-
skaparári mínu. Ég var kominn á einn kirkjustaðinn til þess
að messa, og var fremur fátt um söngfólk. Vék organleikar-
inn sér þá að manni og bað hann að koma og syngja uppi
við orgelið. En maðurinn þverneitaði og kvaðst ekki vera
skyldugur að syngja þar, þar eð hann væri utansóknarmaður.