Skírnir - 01.01.1964, Blaðsíða 12
10
Sigfús Haukur Andrcsson
Skírnir
til vorsins 1800 megi telja „eitthvört sjaldfengasta- og velti-
ár íslands. Hvörr dagurinn ödrum blídari og yndislogri allt
sumarid út, vídast hvar um landid! gott gródurs-ár, allrabesta
nýtíngar-ár, búsældar-ár, ánægju og blessunar-ár fyrir vel-
flestum, hvörs líka fslands annálar talid géta sár-fáa.“.2
Með vorinu 1800 brá hins vegar til kulda, svo að tún greru
víða seint og spretta varð aðeins í meðallagi. Sumarið var
löngum mjög votviðrasamt, einkum er kom fram á engjaslátt,
og þar af leiðandi varð heyfengur manna lítill víðast hvar
og yfirleitt lélegur. Nær eina undantekningin frá þessu var
Þingeyjarsýsla, þar sem nýting heyja virðist hafa verið góð.
Afli hafði yfirleitt verið mjög góður árið 1799, en dágóður
á vorvertíð syðra árið 1800 og sæmilegur við Vesturland.
Hins vegar var sumar- og haustafli alls staðar mjög lélegur
árið 1800, sumpart vegna fiskileysis og sumpart vegna ógæfta.
Af þessu má ljóst vera, að þrátt fyrir hina miklu árgæzku
1799 og fram til vorsins 1800 var þjóðin heldur illa undir
það búin að mæta harðindakafla þeim, sem nú fór í hönd
og stóð að miklu leyti næstu þrjú árin.
Sumarið 1800 var lengst af votviðrasamt víða um land,
eins og fyrr segir, og sams konar tíðarfar hélzt fram eftir
hausti með miklum stormum og stórrigningum. Síðast í októ-
ber brá til hægviðris með snjókomu, sem snerist skyndilega
þann 2. nóvember í stórhríð með miklu frosti, og náði þetta
veður um allt land. Syðra slotaði hríðinni á þriðja degi, og
var þar síðan lengst af sæmilegt vetrarveður fram til 11. marz,
en þá gerði miklar hríðar, sem stóðu nær látlaust fram um
rniðjan apríl. Norðanlands hélzt hins vegar nær óslitin hríð
þar til um miðjan nóvember. Gerði þá eins dags hláku, en
síðan mikið frost, svo að algerlega varð jarðlaust og tók fyrir
alla beit þar til um miðjan apríl, er örlítið byrjaði að þiðna.
Vorið 1801 var rnjög kalt um allt land og allur gróður
síðbúinn, enda var allmikill hafís við landið frá Barðastrand-
arsýslu, norður og austur um til Reyðarfjarðar, allt frá því
í marzmánuði og fram um Jónsmessu.
Þetta tíðarfar, ásamt litlum og lélegum heyjaforða víðast
hvar á landinu, hlaut að hafa mikinn fjárfelli í för með sér.