Skírnir - 01.01.1964, Blaðsíða 132
130
Richard Beck
Skírnir
megum vér vel minnast eftirfarandi orða herra Ásgeirs
Ásgeirssonar, forseta Islands, úr hinni efnismiklu og ágætu
ræðu hans, er hann flutti á samkomu Þjóðræknisfélagsins í
Fyrstu lútersku kirkju í Winnipeg 17. sept. 1961:
Okkur er það fyllilega ljóst, að það hlýtur að verða breyt-
ing, eins og þegar er komið í ljós, og mér er næst að
halda, að það sé meira undrunarefni, hve vel og víða
íslenzkan lifir en hitt, hvað hún daprast með nýjum
kynslóðum. Mægðir við önnur þjóðerni, skólagangan og
leiksystkinin, blöðin og mestallt daglegt líf gefur ríkis-
málinu undirtökin. Þrátt fyrir metnað, þá er það ekki
æskilegt, að íslendingar hagi sér í nýjum heimkynnum
eins og guðs útvalin þjóð. I góðu samræmi við eðlilega
rás viðburðanna, þá er hér unnið mikið og gott þjóðernis-
starf, og við þökkum hverja þá viðleitni, sem sýnd er til
að gera íslenzkt mál svo langlíft sem auðið er meðal al-
mennings af islenzkum uppruna hér í Vesturheimi. Og
svo mikil er hennar náttúra, íslenzkunnar, að við vitum,
að hún deyr hér aldrei út til fulls.
Þetta er viturlega mælt og drengilega í garð okkar Vestur-
Islendinga. Hér er hvorki örvænting né feigðarspá á ferðum,
heldur raunsæi og heilbrigð framtíðartrú. Undir þessi orð for-
setans tek ég heilum huga eftir áratuga reynslu í vestur-ís-
lenzkri þjóðræknisstarfsemi og með fullum skilningi á því,
að við ramman er reip að draga í þeim málum.
Vil ég svo, að málslokum, gera að mínum orðum síðasta
erindið úr hinu snjalla kvæði Einars Páls Jónssonar til séra
Kjartans Helgasonar:
Það máist seint af oss merkið það,
er móðirin lét í arf.
Og áður en Vestur-ísland deyr
fer ýmislegt stórt í hvarf.
Um eilífð verður á einhvern hátt
íslenzkt vort sálarstarf.