Skírnir - 01.01.1964, Blaðsíða 56
54
Halldór Halldórsson
Skírnir
Æðsta gráða við bandaríska háskóla er doktorsgráðan (Ph.
D.). Doktorsritgerðir þar vestra eru gerðar undir handleiðslu
prófessoranna á líkan hátt og í Svíþjóð. Þeir velja að jafnaði
efnin, segja til um vinnubrögð, fylgjast með samningu rit-
gerðarinnar, lesa einstaka kafla, gagnrýna þá og gefa fyrir-
mæli um þær breytingar, sem þeir vilja, að kandidatinn geri.
Einn prófessorinn sagði við mig, að þegar öllu væri á botn-
inn hvolft, væri verulegur hluti af ritgerðum nemenda hans
eftir hann sjálfan, og það væri í rauninni hart að þurfa að
vitna í þær síðar eins og þær væru annars manns verk. Þetta
kann að vera rétt í einstökum tilvikum, en í heild, hygg cg,
að þetta sé mjög orðum aukið. Ég kynntist persónulega öðru,
því að ég var beðinn að leiðbeina tveimur kandídötum, sem
höfðu í smíðum doktorsritgerðir um íslenzk efni. Báðir þessir
kandídatar unnu algerlega sjálfstætt, en þeir leituðu eðlilega
til prófessora sinna, þegar sérstakan vanda bar að höndum.
Af þeim ritgerðum, sem ég kynnti mér, virtist mér, að mest
áherzla væri lögð á, að kandídatinn lærði heimildakönnun
og heimildamat og vitanlega efnissöfnun. Hins virtist mér
síður krafizt, að kandídatinn drægi sjálfstæðar niðurstöður
af rannsóknum sínum. Verkefnin voru mörg hver þannig
valin, að þau gáfu ekki mikið tilefni til frumlegrar eða sjálf-
stæðrar niðurstöðu. En frá þessu voru þó undantekningar.
Vitanlega voru þær ritgerðir, sem ég sá, fáar og á takmörk-
uðu sviði, svo að almennar ályktanir er mér óleyfilegt að
draga. Doktorspróf er nú í miklum metum í Bandaríkjunum,
og mér var sagt, að næstum væri ógerningur að komast í
æðstu prófessorsstöður — verða full professor — án þess að
hafa lokið slíku prófi.
Nokkuð kynnti ég mér kennslu í bandarískum háskólum,
sótti þar kennslustundir og hlýddi á fyrirlestra, bæði í mál-
vísindum, menningarsögu og bókmenntum fornum. Yfirleitt
var þetta hjá afburðakennurum og nafntoguðum vísinda-
mönnum, svo að cngar ályktanir get ég af þessu dregið um
almennan staðal kennslunnar. En þess varð ég var, að kennsl-
an er nákvæmlega skipulögð fyrir fram og raðað niður í af-
mörkuð námskeið miklu meira en hér tíðkast. Þá sótti ég