Skírnir - 01.01.1964, Blaðsíða 258
254
Ritfregnir
Skímir
orðrót". Af þessu leiðir, að afleidd orS (og auðvitað samsett orð) falla
utan merkingar orðsins stofnorðs, og er því í formálanum engin grein
fyrir því gerð, hvernig með afleidd orð er farið í bókinni. Mér sýnist þó,
að meginreglan hafi verið sú að taka algeng afleidd orð með, þótt sum
mjög algeng skorti.
Ég hygg, að það sé ofmælt, sem í foimálanum stendur, að þar séu
„flest eða öll íslenzk stofnorð, sem komizt hafa í íslenzkar orðabækur“.
Ég hefi gripið niður hér og hvar og gert samanburð við aðrar orðahækur,
og mjög oft hafa orðið fyrir mér „stofnorð“, sem ekki sjást í OM. Ég
nefni til gamans fjögur orð, sem hefjast á l og tekin eru úr orðabók séra
Björns í Sauðlauksdal: lall (þýtt: „puerorum primus usus pedum, Begyn-
delsen med at gaa ene“), lapp (þýtt: „fucus, Tang, Klyr, Tarre“), linni
(myndin linnur er tilgreind í OM) og loll (þýtt: „segnities, tardalio, Sen-
drægtighed"). Nú er það matsatriði, hvort ástæða hefði verið til að taka
þessi og önnur álíka „stofnorð“ í bókina, — um það má deila. En ástæðu-
laust er annað en gefa í formála réttar hugmyndir um efni bókar. Af
mjög algengum afleiddum orðum, sem hefjast ó l og vantar í OM, en BH
hefir, mætti nefna: letilegur, lúsugur og lymskur. Þessi dæmi verða að
nægja um þetta atriði.
Mér er engin launung á, að mér virðast miklir gallar á orðavali bók-
arinnar. Sumir þeirra kunna að stafa af því, að það sjónarmið, að bókin
er ætluð skólum, hefir verið fært út í öfgar. Þrír orðhópar virðast eink
um of fyrirferðarmiklir:
1. Ymis fornyrði, einkum stakorð úr fornkvæðum.
2. Ýmis erlend orð, sem stöku sinnum er slett í islenzku, einkum
í talmáli.
3. Fjölmörg náttúrufræðiorð.
Ég vik fyrst að fornyr'Sunum. Það er mesti misskilningur, að orðabók
af þessu tæi geti komið í stað orðskýringabóka, sem notaðar eru í skólum.
1 orðskýringabækur verður oft að taka með orð og orðmyndir, sem vafa-
söm þykja, vegna þess að um er að ræða skýringartilraun á texta þeim,
sem orðskýringabókin fjallar um. 1 almennri orðabók eiga slík orð ekki
heima eða að minnsta kosti er það lágmarkskrafa, að sagt sé, að orðið
eða merking þess sé vafasöm.
Þetta skýrist bezt af dæmum. Lýsingarorðið veSurseygur kemur mér
vitanlega hvergi fyrir i íslenzku handriti. Það er skarpleg skýringartil-
raun Sigurðar Nordals á vísu, sem eignuð er Skalla-Grími (sjá Islenzk
fornrit 11,79). Það má vel vera, að Sigurður hafi hitt naglann á höfuðið,
en við heimildir styðst orðið ekki, og má því ekki athugasemdalaust taka
það upp í orðabók. Viðbótin í OM, að veSurseygjar voSir sé „segl“, er ekki
í samræmi við skýringu Sigurðar og kemur illa heim við vísuna, sem
fjallar um járnsmíði.
Af svipuðum toga er það að taka orð eins og íviSi og íviSjur athuga-
semdalaust, fyrra „orðið“ er úr Völuspártexta Konungsbókar Sæmundar